Brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar

Þriðjudaginn 23. nóvember 1999, kl. 15:23:11 (2091)

1999-11-23 15:23:11# 125. lþ. 31.11 fundur 120. mál: #A brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 125. lþ.

[15:23]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði að Serbar hefðu ekki myrt nema 2.000 manns sem honum fannst afskaplega lítið miðað við að hefðu það verið 200 þúsund. Ég ætla ekki að fara út í þessa talnafræði og hef ekki forsendur til þess að ákveða það en það segir mér heldur ekkert um það hvað Serbar hefðu drepið marga til viðbótar ef þeir hefðu fengið frið til þess. Það var náttúrlega augljóst hvert þeir stefndu í útrýmingarherferð sinni. Ég held að hv. þm. ætti að tala varlega um þetta mál. Öllum heiminum var ljóst að þeir slátrarar sem þar réðu ferðinni höfðu ekki nokkra samúð með einum né neinum. NATO kom ekki inn í málið fyrr en þessi slátrunarherferð var búin að ganga yfir í langan tíma og engar siðmenntaðar þjóðir gátu horft upp á það lengur að það væri gengið svo á fólk eins og þarna hafði upplýst og árangurinn hefur verið sá að það náðist að stilla til friðar. En því miður kostar það líka mannslíf þegar þarf að stilla til friðar en því miður eru stríð með þeim hætti.

Ég held að hv. þm. sé að kasta steini úr glerhúsi þegar hann er að tala um að ég eigi að fara rétt með. Ég held að hv. þm. ætti að athuga eigin málflutning.

Ég tók eftir því, herra forseti, að þingmaðurinn hafði ekkert fram að færa varðandi atvinnumál á Suðurnesjum í því tilviki ef herinn færi, enda ekki nema von, það þyrfti meira en lítið að gerast til þess að skapa öllu því fólki sem þar vinnur önnur störf.