Brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar

Þriðjudaginn 23. nóvember 1999, kl. 15:28:37 (2094)

1999-11-23 15:28:37# 125. lþ. 31.11 fundur 120. mál: #A brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar# þál., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 125. lþ.

[15:28]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Í þágu sagnfræðinnar og í þágu upplýsingarinnar langar mig til að segja hv. þm. Kristjáni Pálssyni að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð er eini stjórnmálaflokkurinn á Íslandi, sem á fulltrúa á Alþingi, sem hefur mótmælt hernaðarofbeldi Rússa í Tsjetsjeníu og krafist þess að utanrrh. Íslands kallaði á fund sinn sendiherra Rússlands í Reykjavík til þess að mótmæla þessu ofbeldi. Mér finnst ömurlegt til þess að vita að ríkisstjórnin hefur ekki þorað að hreyfa andmælum gegn þessu og beðið þess að Clinton eða aðrir herrar láti í sér heyra.

Varðandi atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum vil ég vekja athygli á því að ábyrgir aðilar þar hafa verið þeirrar skoðunar sem við erum að flytja í greinargerð þessarar þáltill. Ég nefni þar t.d. Verslunarmannafélag Suðurnesja sem hefur um árabil lagt áherslu á nauðsyn þess að flétta saman brottför hersins, og ég legg áherslu á brottför hersins, og atvinnuuppbyggingu. Við erum að taka undir þessar kröfur og þær hugmyndir sem hafa komið frá verkalýðshreyfingunni á Suðurnesjum um þetta efni. Það er ábyrg afstaða og við styðjum hana.