Brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar

Þriðjudaginn 23. nóvember 1999, kl. 15:45:37 (2096)

1999-11-23 15:45:37# 125. lþ. 31.11 fundur 120. mál: #A brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 125. lþ.

[15:45]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Allar bollaleggingar um það hvernig atvinna geti byggst upp að nýju á Suðurnesjum ef herinn færi skyndilega eru náttúrlega í sjálfu sér mjög auðveldar hér inni í þingsölum. Það er hægt að segja að þar gæti komið til smáiðnaður, þar gæti Atlanta komið og þarna gæti orðið eitthvert viðhald á flugvélum o.s.frv. Auðvitað gæti þetta hugsanlega allt gerst. En við höfum ekki nokkra vissu fyrir því. Við vitum aftur á móti að viðhaldsskýli Flugleiða er starfrækt innan girðingar og gengur vel. Hvort það þarf að vera miklu meira heldur en það er svo önnur saga. Suðurnesjamenn hafa miklar áhyggjur af því ef það gerðist skyndilega sem hér er lagt til. Þeir hafa í rauninni lengi getað búist við því að einhverjar breytingar yrðu á starfsemi hersins. Þær breytingar sem hafa orðið hafa Suðurnesjamenn náð að leysa farsællega og atvinnuástand þar er sem betur fer gott, eins og hv. þm. sagði. Ég vil nú mótmæla því að stöðnun ríki á Suðurnesjum vegna þess að herinn hafi verið þarna mjög lengi. Ég held að sjaldan hafi verið meiri gróska á Suðurnesjum en einmitt núna og við getum tekið á þeim vandamálum sem koma upp í atvinnumálum.

Hér er um miklu meira en atvinnumál að ræða, það er um að ræða bandalag, tvíhliða samning við Bandaríkin og veru okkar í NATO sem er okkur mjög mikils virði og meira virði en svo að menn hendi því frá sér bara út af einhverjum hugleiðingum um að það gæti hugsanlega verið betra. Hvað það varðar að það sé kjaftæði að bandalagið NATO sé friðarbandalag, þá er það alltaf spurning hvernig þessi hugtök eru skilgreind. En að sjálfsögðu urðu þeir að beita hörku til þess að berja niður yfirgang Serba.