Brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar

Þriðjudaginn 23. nóvember 1999, kl. 15:52:35 (2099)

1999-11-23 15:52:35# 125. lþ. 31.11 fundur 120. mál: #A brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar# þál., Flm. SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 125. lþ.

[15:52]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Bara til að það sé á hreinu, þá hefur þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs gert formlega samþykkt á fundi sem var send fjölmiðlum þar sem við mótmæltum framgöngu Rússa í Tsjetsjeníu. Ég held að við höfum orðið fyrstir íslenskra aðila og því miður sennilega nokkurn veginn einir til þess enn þá að mótmæla því opinberlega. Í framhaldi krafðist hv. þm. Ögmundur Jónasson þess hér í fyrirspurnatíma að utanrrh. kallaði a.m.k. sendiherra Rússa fyrir og mótmælti þessu við hann. En það var hæstv. utanrrh. því miður ekki fáanlegur til að gera.

Varðandi lygaþvæluna sem var hellt yfir heiminn um atburðina í Kosovo þá tekur það auðvitað engu tali. Það hefur komið í ljós eftir á að það voru eyðilögð fleiri sjúkrahús heldur en skriðdrekar. Þeir voru víst ekki nema þrír en a.m.k. fjögur sjúkrahús voru eyðilögð eða stórskemmd, og þar fram eftir götunum. Hv. þm. er því afar óheppinn þegar hann velur sér það sem sérstakt efni til að hrósa Vesturlöndum eða herjum þeirra fyrir hvernig upplýsingamiðlun úr Kosovostríðinu var háttað. Það er óhrekjanlegt að varnarmálaráðherra Bandaríkjanna færði það fram sem rök fyrir því að nauðsynlegt væri að hefja loftárásirnar, að talið var að Serbar væru búnir að myrða allt að 100 þúsund manns í Kosovo. Sem betur fer er að koma á daginn að sú tala var auðvitað stórlega ofmetin. Menn eru að gera sér vonir um að þar verði kannski, þegar upp er staðið, mannfallið í þeim hluta harmleiksins innan við tvö þúsund manns, sem er svipuð tala og tala þeirra sem féllu í loftárásum NATO. Af þessum tvö þúsund sem féllu var talsvert af Serbum. Það voru ekki bara Kosovo-Albanar eða Albanar, heldur líka Serbar sem að þannig féllu.

Herra forseti. Að öðru leyti þá snerist þessi tillaga nú um að herinn færi úr landi og að við undirbyggjum okkur undir þær breytingar sem því væru samfara. Ég er sannfærður um að það eigi eftir að gerast og mér finnst mikilvægt að við förum að ræða það opinskátt og hreinskilnislega hvernig það gæti gerst. Ég er viss um að smátt og smátt muni sá þjóðarvilji verða til að hafa ekki erlendan her í landi okkar um aldur og ævi. Það getur tæplega verið draunsýn eða framtíðarmarkmið að hafa það þannig.