Tillaga Samfylkingarinnar um opna nefndarfundi

Miðvikudaginn 24. nóvember 1999, kl. 13:06:16 (2116)

1999-11-24 13:06:16# 125. lþ. 32.93 fundur 170#B tillaga Samfylkingarinnar um opna nefndarfundi# (aths. um störf þingsins), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 125. lþ.

[13:06]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég vil taka undir þá ósk hv. þm. Jóhanns Ársælssonar að forsn. komi saman og ræði þetta mál þannig að aðkoma almennings að málinu verði tryggð eins og við leggjum til, að fundir iðnn. um þáltill. um Fljótsdalsvirkjun verði haldnir í heyranda hljóði. Einnig yrði almenningi, hópum og samtökum gefinn kostur á að koma á fund nefndarinnar, panta tíma hjá nefndinni til að gera grein fyrir sjónarmiðum sínum. Á þann hátt erum við að uppfylla það sem margoft kom fram í umræðunni um þessa þáltill. í þingsölum að almenningi skyldi tryggð aðkoma að málinu svo hann komi sjónarmiðum sínum á framfæri. Varðandi þá tilhögun að menn geti sent nefndinni tölvupóst og athugasemdir þá er það góðra gjalda vert en við teljum að almenningur fái betur fylgst með málinu með þeim leiðum sem við leggjum hér til.

Þar sem hv. formaður iðnn. treysti sér ekki til að taka afstöðu til málsins, þó hann tæki vel í þessar hugmyndir og vísi því til forsn. vegna þess að þetta gæti haft kostnað í för með sér, þá förum við þess á leit við hæstv. forseta að hann kalli forsætisnefndina saman og ráði bót á þessu þannig að við getum fjallað um málið með aðkomu almennings.