Tillaga Samfylkingarinnar um opna nefndarfundi

Miðvikudaginn 24. nóvember 1999, kl. 13:16:59 (2122)

1999-11-24 13:16:59# 125. lþ. 32.93 fundur 170#B tillaga Samfylkingarinnar um opna nefndarfundi# (aths. um störf þingsins), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 125. lþ.

[13:16]

Guðmundur Árni Stefánsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Að gefnu tilefni finnst mér ástæða til að undirstrika það að við erum hér að ræða málsmeðferð og það er engin ástæða til þess að fara út um víðan völl og dramatísera einhverja atburðarás. Við skulum bara koma að kjarna málsins. Er vilji fyrir því hér inni að opna nefndarstarf eins og tillaga er um? Nálgumst það viðfangsefni. Það er auðvitað ekki tillaga sem er ný af nálinni. Hún hefur komið fram oftar en einu sinni og oftar en tvisvar í gegnum árin eins og hér hefur komið fram. Ég held að ég geti fullyrt að slíkum hugmyndum hefur vaxið ásmegin í seinni tíð. Við þekkjum sviplíka aðferðafræði úr nálægum þingum. Ég held að þetta væri merkt skref fyrir Alþingi að taka og heimildir eru um það í þingsköpum að opna nefndarstarf eins og hér er gert ráð fyrir.

Þess vegna fagnaði ég því alveg sérstaklega þegar ég las Morgunblaðið í morgun að hv. þm. Hjálmar Árnason, formaður iðnn., sem hér á hlut að máli tók mjög undir þessa hugmynd og lýsti því að honum hugnaðist hún og leitaði atbeina forsn. til þess að hún gæti gengið fram. Ég vil bara láta það koma fram fyrir mitt leyti að það stendur ekki á mér sem einum af forsetum þingsins að funda um þetta mál nú strax á eftir og taka þessa beiðni fyrir og afgreiða hana á einn eða annan veg. Ég lít á það sem tillögu frá hluta nefndarinnar að svona verði gengið frá málinu og svona verði starfsaðferðum háttað og vil auðvitað reyna að svara því eftir bestu getu.

Ég fagna því undirtektum við málið og legg áherslu á það, herra forseti, að menn ræði efnisatriði málsins en missi sig ekki í einhverjum uppákomum.