Tillaga Samfylkingarinnar um opna nefndarfundi

Miðvikudaginn 24. nóvember 1999, kl. 13:21:13 (2125)

1999-11-24 13:21:13# 125. lþ. 32.93 fundur 170#B tillaga Samfylkingarinnar um opna nefndarfundi# (aths. um störf þingsins), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 125. lþ.

[13:21]

Hjálmar Árnason (um fundarstjórn):

Herra forseti. Málsmeðferðin er hér til umræðu og ekkert annað og það hefur komið ítrekað fram að málsmeðferð Samfylkingarinnar er í alla staði óeðlileg. Hún er óeðlileg að því leytinu til að málið er ekki tekið upp á reglulegum fundi nefndarinnar þegar er verið að skipuleggja málsmeðferðina. Hún er líka óeðlileg í því hvernig nefndarstörfin í morgun eru túlkuð úr þessum virðulega ræðustól. Hún er líka óeðlileg þegar verið er að vitna í blaðagrein, í hluta blaðagreinar, þar sem er m.a. vitnað í viðtal við þann sem hér stendur.

Hér er því borið við að það sé eingöngu af fjárhagsástæðum sem ýmsir í iðnn. hafi lýst sig andsnúna því að opna bara rétt sisvona þegar Samfylkingunni þóknaðist í morgun. Jafnframt er vitnað til þess að forsn. fari með yfirstjórn á starfsháttum þingsins og því er málinu vísað þangað. Það á að halda því til haga. Við erum nefnilega, herra forseti, að fjalla hér um málsmeðferð og gagnrýna óeðlilega málsmeðferð Samfylkingarinnar í þessu máli eins og kannski stundum öðrum. Það kom fram í gær --- það kemur fram í því að efna til utandagskrárumræðu í dag, sem ég sé ekki að sé tilefni til, m.a. í morgun á fundi hv. nefndar er ætlast til þess jafnvel að nefndin fari að panta sér samkomusali úti í bæ í dag eða í morgun, rétt sisvona. Ég kalla það óvönduð vinnubrögð.

Herra forseti. Ef þingmaðurinn gæti setið kyrr í sæti sínu og hamið æsing sinn þá mun ég ljúka ræðu minni senn. Það hefur komið fram að mikilvægt sé að opna nefndarfundi fyrir almenning. Undir það sjónarmið hef ég tekið. Ég hef líka bent á það að iðnn. hefur hvatt almenning til þess að láta í sér heyra í gegnum internetið og við höfum til allrar hamingju fengið afskaplega mikil viðbrögð við því. Ég skil ekki þetta tal um einangrun þingmanna. Ég vona að hv. þm. Samfylkingarinnar hafi gott samband (Forseti hringir.) við almenning og spyr, herra forseti, að lokum --- það var nú stolið af mér nokkrum sekúndum í truflunum --- af því að Samfylkingin hefur gert heimasíðuna tortryggilega: Verður Samfylkingarinnar (Forseti hringir.) minnst í aldarlok fyrir að hafa lagst gegn internetinu eins og þegar (Forseti hringir.) bændur mótmæltu símanum í upphafi aldar?