Tillaga Samfylkingarinnar um opna nefndarfundi

Miðvikudaginn 24. nóvember 1999, kl. 13:24:12 (2126)

1999-11-24 13:24:12# 125. lþ. 32.93 fundur 170#B tillaga Samfylkingarinnar um opna nefndarfundi# (aths. um störf þingsins), ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 125. lþ.

[13:24]

Ísólfur Gylfi Pálmason (um fundarstjórn):

Herra forseti. Þetta er auðvitað mjög sérkennileg uppákoma í þinginu út af þessu máli. Í morgun gekk ég á fund forseta m.a. til að spyrjast fyrir um það hvort komið hefði beiðni frá Samfylkingunni um að opna þessa fundi. Að sjálfsögðu höfðu þeir ekki fyrir því að tilkynna þetta til forseta þingsins. Hins vegar lásu menn um þetta í blöðum og sáu í fréttum.

Í gær héldu menn, eins og komið hefur fram hér, fund í iðnn. þar sem lögð voru drög að því hvernig dagskrá þessarar nefndarviku yrði. Þar var því miður enginn fulltrúi Samfylkingarinnar til þess þá að kynna önnur vinnubrögð. Í morgun höfum við haldið afar fróðlegan og góðan fund og við getum vonandi haldið þeim áfram. Forsn. hefur beitt sér fyrir því að almenningur geti komið að þessu máli og mörgum öðrum málum í gegnum internetið sem er ný og afar góð leið fyrir almenning til þess að koma að nefndarstörfum þingsins og ég hvet auðvitað almenning til þess að notfæra sér það. Ég tel að það bæti ekki störf okkar að svo komnu máli að opna nefndafundi á Alþingi. Þetta eru fyrst og fremst vinnufundir hjá okkur sem skipta okkur mjög miklu máli og miðað við hvernig okkur hefur gengið í morgun þá er það í raun og veru hinn rétti og góði tónn. Ég er alveg klár á því að við eigum að halda því áfram, en ekki vera með svona uppákomur eins og hér eru.