Beiðni um fund forsætisnefndar

Miðvikudaginn 24. nóvember 1999, kl. 13:28:22 (2128)

1999-11-24 13:28:22# 125. lþ. 32.91 fundur 168#B beiðni um fund forsætisnefndar# (um fundarstjórn), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 125. lþ.

[13:28]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Þessi umræða hefur staðið í 20 mínútur og ég hef ekki enn komist að niðurstöðu um það hvort hæstv. forseti telur að eigi að taka málið fyrir í forsn. Hins vegar finnst mér líka afar undarlegt að menn skulu kalla það upphlaup þegar farið er ...

(Forseti (HBl): Ég vil vekja athygli hv. þm. á að óheimilt er að láta athugasemdir um störf þingsins standa lengur en 20 mínútur í upphafi fundar. Ég vil jafnframt vekja athygli hv. þm. á að hann kvaddi sér hljóðs um störf forseta en ekki um þau ummæli sem einstakir þingmenn hafa látið falla í umræðunum í dag. Ég óska eftir því að hv. þm. haldi sig við það málefni sem hann kvaddi sér hljóðs um.)

Hæstv. forseti. Það sem ég vildi fá fram var eingöngu það hvort hæstv. forseti væri búinn að hugsa sig um og kominn að þeirri niðurstöðu að hægt væri að halda fund í forsn. um þetta mál sem rætt var undir liðnum sem var áðan til umræðu. Ég ætla ekki að notfæra mér tíma minn til þess að tala um málið þó full ástæða væri til þess að bera til baka ýmislegt sem hefur verið sagt hér og er rangt. Hins vegar vil ég helst ekki að umræðunni ljúki öðruvísi en við vitum hvert framhald verður á málinu, hvort það verður afgreitt í forsn. þingsins þannig að ljóst sé hvernig eigi að nýta þann nauma tíma sem menn virðast ætla að taka sér í þetta stóra mál, sem ég hef heyrt sagt að eigi að ljúka fyrir 6. desember, þannig að almenningur í landinu fái tækifæri til að koma að málinu eins og margoft hefur komið fram að sé vilji hæstv. ráðherra sem talaði fyrir málinu.