Vinna umhvn. við skýrslu Landsvirkjunar og yfirlýsing Norsk Hydro

Fimmtudaginn 02. desember 1999, kl. 10:35:21 (2136)

1999-12-02 10:35:21# 125. lþ. 34.91 fundur 172#B vinna umhvn. við skýrslu Landsvirkjunar og yfirlýsing Norsk Hydro# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 125. lþ.

[10:35]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég kvaddi mér hljóðs til að taka undir orð hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur um að gefinn yrði rýmri tími til vinnu í þinginu. Reynt hefur verið að skapa þá ímynd að vinna þingsins með þá þáltill. sem hér hefur verið lögð fram megi leggja að jöfnu við mat á umhverfisáhrifum eins og það er sett fram í lögum. Það er auðvitað fráleitt, eins og ég hef áður sagt, að ætla Alþingi að framkvæma umhverfismat.

Hins vegar gefa orð hæstv. ráðherra tilefni til að fara örfáum orðum um það sem er að gerast í yfirlýsingum frá Norsk Hydro og þetta er satt að segja að verða heldur neyðarlegt mál. Það blasir nefnilega við að ríkisstjórnin er að nota meinta afstöðu Norsk Hydro til að skjóta sér á bak við hana í þeim vilja sínum að framkvæma ekki mat á umhverfisáhrifum. Það er alveg kýrskýrt að ríkisstjórnin hefur aldrei haft áhuga á því að kanna hug Norsk Hydro gagnvart hugsanlegri töf framkvæmda. Þegar það nú gerist að Norsk Hydro tjáir sig um málið opinberlega og orð forráðamanna Norsk Hydro birtast okkur í fjölmiðlum og þeir vilja virða fagleg vinnubrögð á Íslandi, þá verður hér uppi fótur og fit. Það er satt að segja fremur nöturlegt að heyra viðbrögð ráðherrans um að hanga á yfirlýsingunni vegna þess að hana má svo sannarlega túlka. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Það standa enn þá eftir 16 sekúndur af tíma mínum hér.

(Forseti (HBl): Ég vil vekja athygli hv. þm. á að það er verið að ræða störf þingsins.)

Ég er að ræða störf þingsins og það sem þinginu er ætlað hér og að gagnrýna viðbrögð við því sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir hefur farið fram á. Og þar með er tíma mínum lokið, herra forseti.

(Forseti (HBl): Ég vil vekja athygli á því að það eru störf þingsins sem hér eru til umræðu.)