Vinna umhvn. við skýrslu Landsvirkjunar og yfirlýsing Norsk Hydro

Fimmtudaginn 02. desember 1999, kl. 10:41:28 (2139)

1999-12-02 10:41:28# 125. lþ. 34.91 fundur 172#B vinna umhvn. við skýrslu Landsvirkjunar og yfirlýsing Norsk Hydro# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 125. lþ.

[10:41]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Burt séð frá því hvernig yfirlýsingar Norsk Hydro hafa gengið síðustu daga og eru klárlega talsvert misvísandi þá er alveg ljóst að við í hv. umhvn. þurfum frekari tíma til þess að vinna þetta mál. Ég tek þess vegna algerlega undir málflutning hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur. Við höfum farið af stakri natni í málið og ekki er hægt að ásaka stjórnarandstöðuna í nefndinni fyrir að hafa ekki tekið þátt í störfum hennar eða reynt að tefja tímann eða reynt að koma í veg fyrir að fundir verði haldnir.

Við stöndum hins vegar frammi fyrir því að hver vísindamaðurinn á fætur öðrum í þjónustu ríkisins kemur og hefur mjög alvarlegar aðfinnslur við þá skýrslu sem liggur fyrir til umræðu. Ef við eigum að reyna að vinna þetta starf eins og hæstv. ríkisstjórn vill að við gerum það, ef við eigum að reyna að gera það af alvöru og ábyrgð, þurfum við einfaldlega frekari tíma. Til að mynda, herra forseti, af því að við erum að ræða um störf þingsins, hefur komið fram hjá yfirmanni einnar ríkisstofnunar að alvarlegar gloppur séu á skýrslunni en hann telur eigi að síður að upplýsingarnar sem þarf til þess að fylla í þær gloppur liggi fyrir. Hann getur bent á það og það er verið að vinna slíka lista fyrir okkur en þeir verða ekki til fyrr en um helgina. Við þurfum tíma, herra forseti, til að komast yfir þetta. Það er algerlega út í hött að halda því fram að við getum lokið vinnunni þannig að einhver mynd sé á henni á þeim tímaramma sem okkur er settur. Það er ekki mögulegt. Ég mundi telja að við þyrftum a.m.k. nokkra daga til viðbótar til þess að geta slegið einhvern málamyndarbotn í vinnuna en það er útilokað að við getum sinnt því verki sem hæstv. iðnrh. hefur sagt að væri óskandi að við gætum gert nema við fáum meiri tíma. Það er einfaldlega staðreynd, herra forseti.