Vinna umhvn. við skýrslu Landsvirkjunar og yfirlýsing Norsk Hydro

Fimmtudaginn 02. desember 1999, kl. 10:45:47 (2141)

1999-12-02 10:45:47# 125. lþ. 34.91 fundur 172#B vinna umhvn. við skýrslu Landsvirkjunar og yfirlýsing Norsk Hydro# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 125. lþ.

[10:45]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Þessi ósk okkar stafar líka af því að hægt er að færa full rök fyrir því að stjórn þingsins, yfirstjórn þingsins hefur í rauninni ekki skapað nægileg skilyrði í umhvn. til að hægt sé að vinna vinnuna á þeim tíma sem hv. þm. Hjálmar Árnason hefur óskað eftir sem formaður nefndarinnar.

Við erum nýbúin að ljúka nefndaviku og í þeirri viku, þar sem ég taldi að væru aðallega tvær nefndir sem mestu skipti að fengju tíma, þ.e. hv. iðnn. og umhvn., þá fékk umhvn. ekki nema tvo daga. Ef við hefðum haft miklu betra næði í nefndavikunni til að fara í þetta horfði málið einfaldlega öðruvísi við. En við fengum ekki nema tvo daga, við höfum setið allan þann tíma sem okkur var úthlutaður og það er einfaldlega ekki nóg, herra forseti.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan að það eru ekki bara talsmenn einhverra sjálfstæðra félagasamtaka sem eru að vinna gegn því að þessi virkjun verði reist sem hafa komið og sett fram alvarlegar athugasemdir. Það eru sérfræðingar í þjónustu ríkisins sem hafa komið með meitluðustu gagnrýnina. Og ég verð að segja, herra forseti, að eftir þá yfirferð sem núna er lokið í nefndinni má heita að í einstökum köflum skýrslunnar standi vart steinn yfir steini. Sumir eru ágætir en það er alveg ljóst að ef einhver mynd á að vera þeirri yfirferð af okkar hálfu þá þarf frekari upplýsingar til að fylla upp í þá mynd.

Herra forseti. Einnig hefur komið fram af hálfu ríkisstofnunar að ljóst er að þrátt fyrir þau leyfi sem liggja fyrir gagnvart þessari framkvæmd þá er það ekki formlegt framkvæmdaleyfi sem ríkir síðan 1991. Þar af leiðir að þessi framkvæmd er háð gildandi, nýendurskoðuðum lögum um skipulagsmál og þar af leiðir að hún þarf að fara í ákveðið ferli án tillits til umhverfismatsins sem menn deila um. Það verður þess vegna aldrei fyrr en í fyrsta lagi í júlí sem menn geta lokið því ferli og málið farið til ákvörðunar. Við höfum sem sagt nógan tíma.