Vinna umhvn. við skýrslu Landsvirkjunar og yfirlýsing Norsk Hydro

Fimmtudaginn 02. desember 1999, kl. 10:48:01 (2142)

1999-12-02 10:48:01# 125. lþ. 34.91 fundur 172#B vinna umhvn. við skýrslu Landsvirkjunar og yfirlýsing Norsk Hydro# (aths. um störf þingsins), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 125. lþ.

[10:48]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég vil taka undir athugasemdir vegna starfa þingsins og þess vinnuálags sem er á tveimur nefndum þingsins, umhvn. og iðnn. Það er fyrirsjáanlegt að þessar nefndir geta ekki með nokkru móti unnið þá vinnu sem þeim er ætlað að sinna hér á þinginu eftir þeirri málsmeðferð sem þáltill. um áframhaldandi framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun krefur nefndirnar um.

Forsendur eru breyttar. Yfirlýsingar Norsk Hydro um að þeir telji að bíða megi eftir frekari athugun á umhverfisþætti þessa stóra máls breytir auðvitað þessari pressu sem er búin að vera, hefur verið og er hér á þingstörfum. Ég hef ekki orðið vör við að það hafi komið nein yfirlýsing frá íslenskum stjórnvöldum þess efnis að reynt hafi verið að breyta þeirri tímaáætlun sem sett var niður í því samkomulagi sem gert var á Hallormsstað sl. sumar.

Það hefur sem sé ekki verið leitað eftir samkomulagi við Norsk Hydro um breytingar. Og eftir þær yfirlýsingar sem hafa komið, alla vega frá hluta Norsk Hydro --- það verður náttúrlega að vera alveg ljóst hver er þar að tala, á hvern við eigum að hlusta --- þá er ljóst að það er lag að óska eftir breytingu á þessum tímaáætlunum. Það er ekki bara að umhverfisþætti málsins sé alfarið vísað til umhvn. og iðnn., það er möguleiki á því að vísa umhverfisþætti málsins til Skipulagsstofnunar og í það mat sem þetta mál ætti að vera í.