Byggðastofnun

Fimmtudaginn 02. desember 1999, kl. 11:30:38 (2153)

1999-12-02 11:30:38# 125. lþ. 34.1 fundur 224. mál: #A Byggðastofnun# (heildarlög) frv. 106/1999, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 125. lþ.

[11:30]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Sér hv. þm. virkilega engan mun á núverandi skipan stjórnar Byggðastofnunar, þverpólitískri skipan þar sem ráðherra, jafnvel forsrh. sjálfur, hefur ekki boðvald yfir stjórninni, og hinni skipaninni þar sem allir stjórnarmenn í stofnuninni eru fulltrúar eins ráðherra sem skipar þá alla, þeir eru allir ábyrgir gagnvart honum og ráðherra hefur boðvald yfir þeim? Hann hefur vald til að skipa þeim fyrir verkum og hann hefur vald til að breyta niðurstöðu þeirra.

Hv. þm. segist hafa setið sjálfur í stjórn Byggðastofnunar og ekki efa ég það. Þá ætti hann að vita hversu mikil eðlisbreyting þetta er. Ég spyr hv. þm. --- hann getur nú að vísu ekki svarað fyrir sig --- en ég kasta þessari spurningu fram engu að síður: Er það reynsla hv. þm. úr stjórn Byggðastofnunar að nauðsynlegt sé að gera þá breytingu á starfsemi hennar að ráðherra hafi boðvald yfir henni? Saknaði hann þess á meðan hann sat í stjórn Byggðastofnunar að hæstv. forsrh. gæti ekki tekið fram fyrir hendurnar á honum? Var það helsta vandamálið? Var það líka vandamál að hans mati þegar hann sat í stjórn Byggðastofnunar að það skyldi hafa verið forsrh. sem var ráðherra stofnunarinnar? Er þetta dómur reynslu hans sem hann er að flytja hér? Að reynsla hans sé sú að forsrh. eigi að víkja, iðnrh. eigi að taka við og iðnrh. eigi að fá boðvald yfir stjórnmálamönnum? Er þetta lærdómurinn af þeirri reynslu sem hann fékk þegar hann sat sjálfur í stjórn stofnunarinnar?