Byggðastofnun

Fimmtudaginn 02. desember 1999, kl. 11:32:47 (2154)

1999-12-02 11:32:47# 125. lþ. 34.1 fundur 224. mál: #A Byggðastofnun# (heildarlög) frv. 106/1999, SJS
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 125. lþ.

[11:32]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það lofar ekki góðu um framtíð fyrir hönd byggðamála í landinu og framtíð þeirra að hæstv. iðnrh., sem var hér í morgun og rauk í ræðustólinn til varnar því hugarfóstri sínu að þröngva tillögum um Fljótsdalsvirkjun og álver í gegn fyrir áramót, því hann spýttist svo burtu úr þingsalnum þegar þetta frv. kom hér á dagskrá, mál sem á þó að færast til ráðuneytis hans um áramótin ef mál ganga fram með þeim hætti sem ríkisstjórnin ætlar sér. Áhugi hæstv. iðnrh. var sem sagt ekki meiri en þetta á málinu að hann forðaði sér úr þingsalnum um leið og byggðamálin voru tekin á dagskrá. Það væri fróðlegt að vita hvaða skyldur eru svo ríkar á dagskrá hæstv. iðnrh. í dag að hann megi ekki koma því við að sinna þingskyldum sínum og er honum þó málið býsna skylt þó að það eigi að heita svo að forsrh. flytji þetta frv. að nafninu til. Hæstv. forsrh. hefur tekið að sér það hlutverk að vera eins konar sendisveinn, póstur með þetta frv. úr iðnrn. og hingað inn í þingið. Það er nú hlutverk hæstv. forsrh. í málinu og er satt best að segja ýmislegt harla sérkennilegt í kringum þetta mál.

Ég held, herra forseti, að hrossakaup stjórnarflokkanna um Seðlabankann og Byggðastofnun séu einhver verstu og vitlausustu hrossakaup og óheppilegustu fyrir þjóðina sem lengi hafa farið fram. Eða hvort við köllum þetta hnífakaup, alla vega eru þetta þá hnífakaup að óséðu því að ég trúi því ekki að hæstv. forsrh. hefði sjáandi keypt þann hníf sem hann er að fá frá hæstv. iðnrh. í þessu máli.

Staðreyndin er nefnilega sú að helmingur kaupskaparins, þ.e. að færa Seðlabankann til forsrh., er fullkomlega eðlileg ráðstöfun, fyrir því eru mörg rök, enda hefur það sjónarmið oft komið fram á undanförnum árum að Seðlabankinn væri betur vistaður hjá annaðhvort forsrh. eða jafnvel fjmrh. fremur en þar sem hann er í dag. En hinn hluti málsins, þessi dæmalausa meðferð á Byggðastofnun og byggðamálunum er auðvitað algjört hneyksli. Ég ætlaði satt best að segja, herra forseti, ekki að trúa því að þessi pappír væri eins og raun ber vitni fyrr en ég fékk hann í hendur og las hann. Maður hafði að vísu illan grun um hvað væri í vændum þegar fram höfðu komið viðbrögð manna eins og hæstv. félmrh. og seinna Egils Jónssonar, núv. stjórnarformanns Byggðastofnunar. En ef eitthvað er, þá er málið allt saman verra og hraklegra en við mátti búast, jafnvel út frá viðbrögðum þessara manna.

Tilurð þessa frv. er mjög merkileg, eins og reyndar var gert hér ágætlega að umfjöllunarefni hjá hv. síðasta ræðumanni. Ekki tók það nú langan tíma að hrófla þessu saman. Nefndin var skipuð 16. september sl. og 11. nóvember skilar nefndin af sér. Enda augljóslega um að ræða sýndarmennskustörf, hreina sýndarmennsku, leyfi ég mér að kalla það. Samsetningin er líka þannig að það er varla við góðu að búast.

Hvers vegna í ósköpunum er iðnrn. látið stýra þessari vinnu? Hvers vegna í ósköpunum er það gert? Þetta er auðvitað þannig að það eru framsóknarmenn og ráðuneytismenn sem hafa kokkað þetta saman. Hv. þm. Guðjón Guðmundsson fékk að vísu að vera þarna með en ég veit ekki hvaða tilgangi það hefur í raun og veru þjónað, alla vega ef maður lítur á útkomuna.

Í nefndinni var Kristinn H. Gunnarsson, sem eins og kunnugt er hefur á undraskömmum tíma orðið einn mesti framsóknarmaður norðan Alpafjalla og þarf enginn að efast um hvaða erindi hann hefur átt inn í þetta starf. Síðan var skrifstofustjóri iðn.- og viðskrn. í nefndinni. Hver var ritari nefndarinnar? Jú, það var hann Magnús okkar Stefánsson, og ætli hann sé nú ekki eitthvað tengdur Framsfl., sem hefur nýlega orðið svo stálheppinn að vera valinn úr hópi umsækjenda um framkvæmdastjórastöðu Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. Og hver aðstoðaði við lögfræðileg atriði? Það var lögfræðingur í iðn.- og viðskrn. Þetta var hópurinn sem hélt utan um málið. (Gripið fram í: Ekki gleyma Sigfúsi.) Sigfús er ágætur hlaupari og mikill landfræðingur en ég held að ekki sé rétt að hengja þetta um of hvorki á hann né hv. þm. Guðjón Guðmundsson því að þeir hafa augljóslega verið settir inn í þetta verk bara til þess að það liti betur út á pappírnum. En það er alveg augljóst mál hverjir hafa ráðið hér ferðinni, hver hefur vélað um þetta. Það hefur iðnrh. gert með sínum mönnum, flokksbræðrum sínum og starfsmönnum sínum í ráðuneytinu. Það liggur þannig. Þetta er ámælisvert og langt frá því að bera það yfirbragð á nokkurn hátt sem maður hlýtur að ætlast til þegar um alvörumál af þessu tagi er að ræða.

Út af fyrir sig er það umhugsunarefni, herra forseti, og að nokkru leyti aðdáunarvert að Framsfl. skuli treysta sér til að taka við byggðamálunum. Ég hef sagt það áður opinberlega að það sé til marks um klókindi og refsskap hæstv. forsrh. að koma þessari heitu kartöflu yfir í hendurnar á framsóknarmönnum. Hæstv. forsrh. skilar eins og allir vita mjög vondu búi í byggðamálum. Ef ætti að greina það þá býst ég við að hæstv. forsrh. hljóti sjálfur að verða að viðurkenna að þetta sé einn sá málaflokkur, hvað sem öðru líður, þar sem hæstv. ráðherra hefur ekki sinnt vel um. Hæstv. forsrh. hefur borið ábyrgð á byggðamálum í hátt á níunda ár og útkoman er eins og raun ber vitni, nánast samfelld afturför á því sviði. Frá og með árinu 1993 að telja hefur fólksstraumurinn af landsbyggðinni aukist nánast árlega.

Það er kannski vegna þess að hæstv. forsrh. er orðinn úrkula vonar um að honum muni takast að snúa þarna nokkru við, að breyta nokkru, að þessu vandamáli er ruslað yfir í Framsókn og Framsókn tekur við. Og það er athyglisvert. Hvort það er einhver sjálfseyðingarhvöt sem drífur þá áfram í að taka við þessum vandamálaverkefnum öllum skal ósagt látið. En hitt er ljóst að búið er ekki gott.

Hvernig bregðast menn síðan við þeirri stöðu sem við blasir í byggðamálum? Jú, það á að gera það með því að veikja enn Byggðastofnun að mati þeirra manna sem ættu nú að hafa sæmilega aðstöðu til að leggja þar dóm á, núverandi stjórnarformanns og hæstv. félmrh., þeir hafa báðir úttalað sig opinberlega um það. Og það á að flokksvæða stofnunina. Framsfl. á að fá þennan málaflokk og það á að flokksvæða hana algjörlega. Framsóknarmenn, hæstv. iðnrh. á að fá vald til að skipa með eigin hendi sjö manna stjórn Byggðastofnunar og sjö menn til vara. Fjórtán framsóknarmenn komast þannig fyrir undir þessum hatti. Fjórtán framsóknarmenn geta tekið við þessu upp úr áramótum, verði þetta gert að lögum með þessu móti.

Er nokkur ástæða til að ætla annað en að það verði þannig? Nei, svarið er það. Kannski verður hafður þarna einn sjálfstæðismaður, svona til þess að hafa fjarvistarsönnun frá því að þetta sé 100% flokksvæðing, en þá verður það a.m.k. um 85% flokksvæðing. Öll sporin hræða mjög í þeim efnum. Þetta er furðuleg ráðstöfun, leyfi ég mér að segja, að leggja til að þingkjörin stjórn og þverpólitísk stjórn þessa málaflokks í formi stjórnar Byggðastofnunar, verði slegin af og þetta sett undir flokksvald eins ráðherra og þá iðnrh.

Hvers vegna í ósköpunum iðnrh.? Hver eru rökin önnur en þau að iðnrh. heitir Finnur Ingólfsson og er framsóknarmaður? Það eru engin önnur rök, engin. Það hafa engin rök verið færð fram fyrir því að það sé stjórnskipulega eða pólitískt skynsamlegt að vista stofnunina sérstaklega þarna. Ég sé mjög margt sem mælir gegn því.

Ef færa ætti stofnunina til á annað borð, þá held ég að ein þrjú ráðuneyti önnur hefðu átt að koma til skoðunar á undan iðnrn. og viðskrn. Það er í fyrsta lagi félmrn. Það væru ýmis rök fyrir því að hafa byggðamálin hjá félmrn. sem fer með málefni sveitarfélaganna og það væri að mörgu leyti handhægt að flétta það saman. Eða þá að það væru frekar þau atvinnuvegaráðuneyti sem fara með höfuðatvinnugreinar landsbyggðarinnar, sjútvrn. eða landbrn. Fyrir því gætu verið ýmis rök þó að það sé ekki heldur að öllu leyti heppilegt. En iðnrn. er að mörgu leyti mjög fjarlægur kostur í þessum efnum. Af hverju ekki bara kirkjumrn.? Það er ekki framsóknarmaður í því ráðuneyti, það eru auðvitað aðalrökin gegn því. En framsóknarmenn fara nú með félmrn. og ef það var verkefnið að jafna á klyfjunum milli stjórnarflokkanna, þá hefði verið nær að færa þetta annað en í iðnrn. að mínu mati.

Herra forseti. Aðeins um stöðu stofnunarinnar sem út úr þessu öllu kemur. Það er mjög athyglisvert að bera saman 1. gr. gildandi laga um Byggðastofnun og síðan 1. gr. þessa frv. 1. gr. gildandi laga er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Byggðastofnun er sjálfstæð stofnun í eigu íslenska ríkisins og heyrir undir forsætisráðherra.``

Þessu er snúið yfir í:

,,Byggðastofnun er sérstök stofnun ...`` --- Og það má til sanns vegar færa, þetta verður afar sérstök stofnun ef þessar breytingar verða gerðar. --- ,,Byggðastofnun er sérstök stofnun í eigu íslenska ríkisins og heyrir undir yfirstjórn iðnaðarráðherra``.

Þarna er vikið við tveimur orðum, þ.e. öðru bætt við og hinu breytt. Þetta verður ,,sérstök`` stofnun í staðinn fyrir ,,sjálfstæð`` stofnun, en síðan er skotið inn orðinu ,,yfirstjórn`` á eftir ,,heyrir undir``. Og þarna er a.m.k. með táknrænum hætti, hversu mikið sem menn vilja leggja upp úr efnisbreytingunum, verið að undirstrika vald iðnrh. með því að taka það fram að þetta heyri undir yfirstjórn hans, en þetta er ekki hefðbundið orðalag á vistun sjálfstæðrar stofnunar með því að segja eingöngu að stofnunin eða starfsemin heyri undir ráðherra. Nei, heyrir undir yfirstjórn iðnrh. þurfti það að vera, og það hefur þeim framsóknarmönnunum dottið í hug að læða inn, og síðan á þetta að vera sérstök stofnun í staðinn fyrir sjálfstæð stofnun.

En langmesta breytingin er þó hin furðulega skipan stjórnar stofnunarinnar og það er ljóst að eins og þetta er fléttað saman með ákvæðum 1. gr., með ákvæðum 3. gr. um skipan stjórnar og á einum 10--20 stöðum öðrum, þar sem vald iðnrh. er sett inn í mismunandi greinar frv. Ég hef ekki talið það saman en það er ábyggilega milli 10 og 20 sinnum sem iðnrh. er sérstaklega talinn upp á ólíklegustu stöðum. Það á meira að segja að ákveða staðsetninguna samkvæmt þessari nýju formúlu, að það sé geðþóttaákvörðun ráðherra hvernig þeir ráðskast með hugsanlega vistun ríkisstofnana, og er mikil speki eða hitt þó heldur.

[11:45]

Það er nærtækt, herra forseti, að vitna til tveggja manna sem hafa tjáð sig opinberlega um þetta mál. Fyrst hæstv. félmrh. Hvað segir hæstv. félmrh.? Ekki getur verið að hann styðji þetta frv.? Það hlýtur að liggja ljóst fyrir að þó um stjórnarfrv. sé að ræða þá er a.m.k. nokkuð öruggt að einn stjórnarþingmaður styður ekki málið, þ.e. hæstv. félmrh. Hann hefur talað sig frá því opinberlega, áður en það var flutt. (Forsrh.: Hann styður málið.) Hann styður málið segir hæstv. forsrh. Handjárnunum hefur aldeilis verið komið á hann.

Í viðtali í Degi, fimmtudaginn 25. nóv., segir hæstv. félmrh. eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Í vor var um það talað að setja upp öflugt batterí sem ætti að valda straumhvörfum í byggðamálum. Ég vildi gjarnan leggja hönd að því. Nú er komið fram frumvarp um að færa Byggðastofnun til iðnrn. og Seðlabankann til forsrn. Sú Byggðastofnun sem út úr þessu kemur er veikari ef nokkuð er. Ákveðið sjálfstæði er skert, sem Byggðastofnun hefur þó búið við þrátt fyrir allt. Þetta er ekki með þeim hætti sem um var talað í vor og ég tel mig ekki bundinn af neinu samkomulagi þar um. Ég hef ekki áhuga á að taka að mér þetta verk undir þessum formerkjum. Ég var búinn að binda vonir við þetta en lýsi yfir vonbrigðum mínum, bæði í ríkisstjórn og þingflokki.``

Svo mörg voru þau orð. Það er nú erfitt að lesa út úr þessu stuðning við málið hjá hæstv. félmrh.

Síðan hefur formaður stjórnar Byggðastofnunar og fyrrv. hv. þm., Egill Jónsson, talað nokkuð skorinort um þetta mál, m.a. í grein í Morgunblaðinu í dag. Hann dæmir þetta mjög svipað og hæstv. félmrh. Hann telur að verið sé að veikja stofnunina en ekki styrkja og hann fullyrðir að þess sjáist hvergi stað í þessu máli að reyna eigi að gera alvöru úr því átaki í byggðamálum sem menn hafi verið að tala um. Hann telur þetta fyrst og fremst aðferð til að færa iðnrh. málaflokkinn, talar um að leikurinn sé nú léttur fyrir ,,ráðherravald`` og ,,stofnanaforræði`` að klófesta byggðamálin.

Enn fremur segir Egill:

,,Það dylst ekki að í frumvarpi um byggðamál er ekki að finna neinar þær áherslur sem treysta stöðu og afkomu landsbyggðarinnar nema síður sé.``

Eins og hæstv. félmrh. telur formaður stjórnar Byggðastofnunar þetta vera afturför, veikja stofnunina, vera til hins verra.

Herra forseti. Hv. fyrrv. þm., Egill Jónsson, núv. stjórnarformaður Byggðastofnunar, notar þarna býsna sterk orð. Hann lýsir eftir hinum dularfulla, margumtalaða milljarði og telur að samþykktir á miðstjórnarfundum Framsfl. dugi ekki einar til í þessum efnum.

Í greininni segir einnig, með leyfi forseta:

,,Það sem er þó ógeðfelldast í þessari umræðu og sérstaklega ber að vara við er hvernig hún tengist orðið embættaskipan innan Framsóknarflokksins og hvað hún er náin fyrirmynd þeirrar skipunar þessara mála hjá Framkvæmdastofnun ríkisins sem átti grundvöll sinn í peningum og völdum. Þannig á nú að leysa innbyrðis vanda Framsóknarflokksins í valdaskipan flokksins. Hér er því um arf að ræða frá gamalli tíð, raunar vondan arf eins og í upphafi þessarar greinar var lýst. Umræða um málefni landsbyggðarinnar hefur beðið hnekki og hún er sár og móðgandi fyrir alla þá sem eru þátttakendur í umfjöllun um byggðamál. Innanflokksmálefni Framsóknarflokksins eru gjörsamlega óháð byggðamálum. Þau mál verður flokkurinn að leysa af eiginn rammleik, til þess hefur hann góða reynslu og umfram allt verða málefni dreifðra byggða á Íslandi að vera í friði fyrir innbyrðis vanda Framsóknarflokksins.`` Við þetta mætti bæta: ... og helmingaskiptum stjórnarflokkanna. Það er í raun og veru það eina sem vantar inn í þessa grein til þess að um sé að ræða nokkurn veginn fullkomna lýsingu á þeim skrípaleik sem í gangi er.

Það er dapurlegt, herra forseti, við þær aðstæður að byggðavandi í landinu hefur aldrei verið meira brennandi en einmitt um þessar mundir þá skuli orka stjórnarflokkanna fara í hrossakaup af þessu tagi og málaflokkurinn líða fyrir. Það gerir hann augljóslega.

Hér eru ekki á ferðinni úrræði, fjármunir eða aðgerðir til að snúa vörn í sókn í byggðamálum. Nei, hér eru á ferðinni hrossakaup stjórnarflokkanna, hrókeringar þeirra í milli sem tengjast samningum um myndun síðustu ríkisstjórnar. Þetta eru ógeðfelld hrossakaup þar sem blandað er saman óskyldum hlutum sem ætti að halda aðgreindum. Annars vegar því að færa Seðlabankann undir forsrn., sem að mörgu leyti er eðlilegt mál og sá sem hér talar gæti vel hugsað sér að styðja, en ekki hluta af kaupskap af þessu tagi. Sú meðferð byggðamála og Byggðastofnunar sem hér er á ferðinni er hreint hneyksli. Ég er algerlega andvígur þessum breytingum. Ég tel þær stórlega til skaða fyrir málaflokkinn og hvet menn til þess að gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að koma í veg fyrir að málið nái fram að ganga.

Ég spyr mig: Er það virkilega svo að allir þingmenn Sjálfstfl. hafi skrifað upp á þetta og samþykkt? Var málið afgreitt fyrirvaralaust úr þingflokki sjálfstæðismanna? Hafa menn skuldbundið sig til að styðja þessi ósköp eins og þau eru hér fram borin?

Eitt er að færa stofnunina og það er hægt að gera á annan hátt en þennan. Það væri strax mikill munur ef menn létu vera að gera þær breytingar, t.d. á skipan stjórnar sem frv. felur í sér þó svo að hún --- illu heilli að mínu mati --- færi undir iðnrn.

Svo er nauðsynlegt að spyrja, herra forseti: Er eitthvað fleira hér á ferðinni? Hangir fleira á spýtunni? Stendur til að breyta iðnrn. aftan frá í einhvers konar atvinnuvegaráðuneyti? Er eitthvað hæft í sögum um að til sé leyniplagg sem geri ráð fyrir því að færa allar rannsóknarstofnanir atvinnuveganna undir iðnrn., undir hatti Iðntæknistofnunar? Eru einhverjir slíkir hlutir á döfinni? Þetta mál er svo torkennilegt og svo sérkennilegt hvernig það ber að að það vekur grunsemdir um að enn hafi ekki öll sagan verið sögð.

Að lokum, herra forseti, tel ég fráleitt að stjórnarflokkarnir ætli sér að knýja þetta mál í gegn, stórpólitískt deilumál sem er umdeilt bæði innan veggja þingsins og einnig úti í þjóðfélaginu. Hér hefur verið vitnað til afstöðu núv. stjórnarformanns Byggðastofnunar og hæstv. félmrh. Það er fráleitt að mæla fyrir þessu frv. hér 2. des. þegar nokkrir virkir dagar eru eftir fram að jólaleyfi og tala um að það nái hér afgreiðslu. Enda breytir engu þó að málið bíði fram yfir áramót.