Byggðastofnun

Fimmtudaginn 02. desember 1999, kl. 11:54:04 (2156)

1999-12-02 11:54:04# 125. lþ. 34.1 fundur 224. mál: #A Byggðastofnun# (heildarlög) frv. 106/1999, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 125. lþ.

[11:54]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég skal nefna nokkur dæmi í viðbót fyrir hv. þm. Ég tel í fyrsta lagi algjörlega misráðið að færa þennan málaflokk undir iðnrn. Það skortir öll rök fyrir því önnur en þau að iðnrh. heitir Finnur Ingólfsson og er varaformaður Framsfl. Í öðru lagi tel ég að þessi skipan á stjórn Byggðastofnunar muni veikja hana, muni skapa um hana pólitískar deilur og hún muni ekki hafa það þverpólitíska bakland sem hún hafði áður. Í þriðja lagi er tekjugrundvöllur stofnunarinnar ekki tryggður, það er allt í lausu lofti. Í fjórða lagi tel ég að ganga þurfi skýrar frá aðild Byggðastofnunar að fjármögnun verkefna, t.d. varðandi það sem segir í 12. gr. frv. Það er allt í lausu lofti. Um það á iðnrh. að setja reglur og þar segir að slík starfsemi skuli einkum fjármögnuð með sérstökum framlögum úr ríkissjóði. Þetta er allt í lausu lofti.

Og varðandi milljarðinn er eðlilegt að menn séu tortryggnir þegar hér kemur fram fjárlagafrv. þar sem algjörlega vantar fjármuni til að standa við samkomulag flokkanna um aðgerðir í byggðamálum frá sl. vori. Er nema von að menn verði þá tortryggnir og spyrji: Bíddu, hvað með efndir á þessu?

Það er svo furðulegt að það er eins og framsóknarmenn kunni bara eina tölu þegar þeir gefa loforð. Það er milljarður. Þeir lofa milljarði í alla skapaða hluti, oft sama milljarðinum í margt í einu. Þeir lofuðu milljarði í fíkniefnavarnir. Þeir lofa milljarði í byggðamál. Svo heyrði ég um daginn að búið væri að lofa sama milljarði til að efla rannsóknir í landinu og menn væru að tala um að taka 20% af sölu ákveðinna ríkisfyrirtækja og nota í mörg verkefni í einu. Þetta er allt í lausu lofti og það er von að spurt sé.

Ég held að hv. þm. Guðjón Guðmundsson geti ekki verið mjög stoltur af aðild sinni að þessu máli.