Jarðalög

Fimmtudaginn 02. desember 1999, kl. 12:17:16 (2163)

1999-12-02 12:17:16# 125. lþ. 34.3 fundur 227. mál: #A jarðalög# (lögræðisaldur) frv. 119/1999, SighB
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 125. lþ.

[12:17]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Þetta er lítið frv. sem ástæðulaust er að gera athugasemdir við enda ætla ég ekki að gera það. En í tilefni þess að þetta frv. er flutt langar mig til að beina spurningu til hæstv. landbrh.

Jarðalögin sem við nú búum við eru meira en barn síns tíma. Þau eru arfur frá gömlum viðhorfum sem ekki hafa átt við um áratuga skeið. Tilgangur laganna var að halda í hefðbundnum landbúnaði öllum þeim bújörðum sem voru í hefðbundnum landbúnaði í byrjun áttunda áratugarins, ef ég man rétt árin 1972--1974. Þar eru alls konar kvaðir settir til að koma í veg fyrir að bændur gætu ráðstafað jarðeignum sínum til annarra nota. Meðal annars eru kvaðir á því að bændur geti ekki ráðstafað jarðeignum sínum til erfingja sinna nema að uppfylltum ströngum skilyrðum. Jarðalögin eru þannig úr garði gerð að svokallaðar jarðanefndir, skipaðar sveitungum viðkomandi bónda, geta tekið af honum frelsi til viðskipta með jörð sína og jafnvel uppálagt honum að selja jörð sína öðrum en þeim sem hann óskar sjálfur. Þeir geta komið í veg fyrir eðlileg samskipti bónda bæði við börn sín og samsveitunga eða komið í veg fyrir að bóndi geti nýtt sér jörð sína eðlilega til annars en hefðbundins búskapar.

Nú eru tvö ár síðan ég flutti frv. til laga um breytingu á þessum lögum. Ég man eftir því að núv. hæstv. landbrh., sem þá var óbreyttur þingmaður og formaður landbn., tók þeim tillögum vel. Þáv. landbrh. lýsti því yfir að jarðalögin væru til endurskoðunar í landbrn., einmitt í þá átt sem ég hafði lagt fram frv. um. Nú eru meira en tvö ár liðin, herra forseti, síðan það var og ég átti nú satt að segja von á því að sjá víðtækari breytingar á jarðalögunum í frumvarpsformi frá hæstv. landbrh. en liggja hér í dag.

Þess vegna langar mig til að spyrja hæstv. landbrh. hvort ekki sé komið að því að hann leggi fram á næstu dögum, helst fyrir jól, frv. til laga um breytingu á jarðalögunum til að gera bændum landsins kleift að ráðstafa jarðeignum eðlilega, hvort heldur með sölu til annars aðila, með arfskiptum til barna sinna eða til annars en hefðbundins búskapar. Eða leggur hæstv. landbrh. til, eins og hann lagði til í fyrra þegar hann var óbreyttur þingmaður, að ég endurflytji frv.?