Jarðalög

Fimmtudaginn 02. desember 1999, kl. 12:22:48 (2165)

1999-12-02 12:22:48# 125. lþ. 34.3 fundur 227. mál: #A jarðalög# (lögræðisaldur) frv. 119/1999, landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 125. lþ.

[12:22]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir ræður þeirra þó þær snúi að öðru efni en þetta frv. fjallar um. Ég get að mörgu leyti tekið undir með þeim. Jarðalögin og ýmis ákvæði í þeim voru eins og hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sagði hér áðan, barn síns tíma. Þau þarf að endurskoða. Að því er unnið og ég vona að ég nái því sem fyrst að leggja fram frv. þess efnis fyrir þingið og við getum breytt þeim lögum.

Ég get tekið undir að forkaupsréttarákvæði í jarðalögunum sem stundum hefur verið beitt, en þó æ sjaldnar ... (Gripið fram í: Og stundum misbeitt.) og stundum misbeitt, eins og hv. þm. segir, gildir ekki lengur. Við þurfum ekki allar jarðir undir ær og kýr eins og hugsunin var þegar lögin voru sett. Eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar er auðvitað gríðarlega sterkt. Það hefur vegið þyngra og margir úrskurðir verið felldir og forkaupsréttur felldur úr gildi þar sem honum hefur verið beitt.

Ég held að mikilvægt sé að reyna að hraða þessu máli og ég mun beita mér fyrir því. Eins og ég sagði áðan, hæstv. forseti, er nefnd að störfum og ég vona að þetta mál geti komið hér inn í þingið í vetur.