Jarðalög

Fimmtudaginn 02. desember 1999, kl. 12:29:13 (2170)

1999-12-02 12:29:13# 125. lþ. 34.3 fundur 227. mál: #A jarðalög# (lögræðisaldur) frv. 119/1999, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 125. lþ.

[12:29]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Eins og komið hefur fram í umræðu um þessi mál er hér um að ræða arf frá fornu fari sem enn er í lögum á Íslandi. Takmark jarðalaganna er að koma í veg fyrir að hægt sé að taka bújarðir á Íslandi til annarra nota en hefðbundins búskapar. Til þess að reyna að tryggja það eru í gildandi lögum ákvæði sem koma í veg fyrir það að bændur geti nýtt eignir sínar eins og þeim sjálfum er hagkvæmast hverju sinni.

[12:30]

Það er m.a., ef ég man rétt, ákvæði sem bannar bónda að koma upp ferðaþjónustu á jörð sinni nema með leyfi jarðanefndar. Það eru ekki bara skipulagsyfirvöld sem þurfa að fjalla um það heldur þurfa aðrir bændur í sveitinni að veita heimild til þess að viðkomandi jörð geti sinnt ferðaþjónustu að einhverju marki. Að maður tali nú ekki um kvaðirnar sem settar eru á bændur landsins um að þeir megi ekki nema með leyfi samsveitunga sinna ráðstafa jörðum sínum til barna sinna sem vilja taka við þeim til nýtingar. Þetta er einn af þeim fjötrum frá gamalli tíð sem hefur gert bændur að fátækustu stétt á Íslandi því að þeim einum hefur verið gert að sæta því að mega ekki ráðstafa eignum sínum eins og þeir vilja. Það eru tveir flokkar hér á þingi sem bera ábyrgð á þessu, sem hafa sett þessi lög og hafa spyrnt við fótum fram að þessu að þeim yrði breytt. Afleiðingin er sú að fátækt er föst fylgikona bændastéttarinnar. Það gleður mig mjög að heyra að hæstv. landbrh. er sömu skoðunar eftir að hann kom til landbrn. eins og hann var á meðan hann var formaður landbn., þ.e. að þessum lögum þurfi að breyta og helst afnema. Engu að síður held ég að það sé tryggara að ég endurflytji þær gömlu breytingar sem hæstv. ráðherra var vinsamlegur fyrir á sínum tíma og vona að sú vinsemd hafi enst honum í stólaskiptunum líka.