Meðferð einkamála

Fimmtudaginn 02. desember 1999, kl. 12:36:53 (2174)

1999-12-02 12:36:53# 125. lþ. 34.5 fundur 64. mál: #A meðferð einkamála# (EES-reglur, málskostnaðartrygging) frv. 97/1999, Frsm. HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 125. lþ.

[12:36]

Frsm. allshn. (Hjálmar Jónsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. allshn. á þskj. 279 um frv. til laga um breyting á lögum um meðferð einkamála.

Nefndin hefur fjallað um málið og farið yfir umsagnir sem bárust.

Í frv. er lögð til breyting á reglum um málskostnaðartryggingu í 133. gr. laganna.

Forsaga málsins er sú að fyrr á þessu ári var sent bréf til íslenskra stjórnvalda frá Eftirlitsstofnun EFTA þar sem því er haldið fram að umrætt ákvæði geri stöðu aðila sem höfðar mál hér á landi og er búsettur erlendis lakari en þeirra sem búsettir eru hér. Telur stofnunin að ákvæðið samrýmist ekki 4. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið um bann við hvers konar mismunun á grundvelli ríkisfangs.

Af þessari ástæðu er lagt til í frv. að gerðar verði breytingar á þann veg að staða manna verði sú sama að þessu leyti án tillits til þess hvar þeir búa á Evrópska efnahagssvæðinu og mælir hv. allshn. með því að frv. verði samþykkt óbreytt.