Seðlabanki Íslands

Fimmtudaginn 02. desember 1999, kl. 13:31:25 (2177)

1999-12-02 13:31:25# 125. lþ. 34.2 fundur 214. mál: #A Seðlabanki Íslands# (breyting ýmissa laga, yfirstjórn) frv. 103/1999, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 125. lþ.

[13:31]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Í morgun fjölluðum við um frv. til laga um Byggðastofnun og nú er tekið á dagskrá frv. til laga um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands. Raunar má segja að tilgangur beggja þeirra frv. sem tekin eru fyrir í dag sé sá að leysa innanbúðarvanda framsóknarmanna. Þetta frv. gæti alveg eins borið slíkt heiti. Ég man ekki eftir, og hef ég nú verið nokkuð lengi á þingi, að svo mikið hafi þurft við að Alþingi hafi þurft að taka fyrir tvö stjfrv. til að leysa innanbúðarvandamál eins stjórnmálaflokks og að verið sé að búa raunverulega til stöðu fyrir einstakling sem þarf að skipta út í ríkisstjórn vegna innanbúðarvandamáls annars stjórnarflokksins. Það er mjög sérkennilegt.

Ekki síst er þetta líka alvarlegt þegar svo ber við, eins og við ræddum í morgun, að t.d. með frv. um Byggðastofnun er verið að veikja stöðu Byggðastofnunar. Raunverulega má segja slíkt hið sama varðandi Seðlabankann.

Ég held, herra forseti, að það frv. sem við tökum á dagskrá þar sem verið er að breyta um yfirstjórn í Seðlabankanum, taka það úr höndum hæstv. viðskrh. og fela það hæstv. forsrh., sé í sjálfu sér ekki mikil breyting. Þó er hægt að segja að þarna er verið að færa málefni Seðlabankans undir ráðherra sem fer með efnahagsmál og af því er hægt að draga þá ályktun að með þessu sé verið að auka pólitísk afskipti af Seðlabankanum og verið sé í rauninni að styrkja tengslin milli hins pólitíska valds og Seðlabankans, sem ég held að sé þveröfugt við þá þróun sem er í gangi í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Þar gengur umræðan út á það að auka sjálfstæði seðlabanka. Það er það sem við ættum að vera að ræða varðandi það frv. sem hér er á dagskrá, þ.e. að auka sjálfstæði Seðlabankans og styrkja stöðu hans í stjórnkerfinu.

Ég ætla að vitna í ágæta grein eftir Má Guðmundsson, aðal\-hagfræðing Seðlabanka Íslands, sem birtist í Vísbendingu um hlutverk og skipulag nútímaseðlabanka. Þar segir hann, með leyfi forseta:

,,Nokkuð skortir á að Seðlabanki Íslands hafi sams konar lagalegt sjálfstæði og best gerist í þróuðum iðnríkjum.`` --- Ég hygg að nokkuð sé til í því.

Þegar ég segi að við hefðum frekar átt að vera að fjalla um frv. til laga um breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands til að styrkja sjálfstæði bankans, þá má segja að lögin eins og þau eru núna eru orðin mjög úrelt og ekki í samræmi við þá þróun sem gerist í þeim löndum sem við berum okkur saman við. 4. gr. laganna um Seðlabanka Íslands kallar raunverulega á breytingu en þar segir, með leyfi forseta:

,,Í öllu starfi sínu skal Seðlabankinn hafa náið samstarf við ríkisstjórnina og gera henni grein fyrir skoðunum sínum varðandi stefnu í efnahagsmálum og framkvæmd hennar. Sé um verulegan ágreining við ríkisstjórnina að ræða er seðlabankastjórn rétt að lýsa honum opinberlega og skýra skoðanir sínar. Hún skal engu síður telja það eitt meginhlutverk sitt að vinna að því að sú stefna, sem ríkisstjórnin markar að lokum, nái tilgangi sínum.``

Þessi grein er orðin úrelt að mínu viti og kallar á breytingar og í þá veru að auka sjálfstæði Seðlabankans.

Ég ætla aftur að vitna í þessa grein í Vísbendingu eftir Má Guðmundsson þar sem hann einmitt fer yfir hlutverk og skipulag sem hann kallar hjá nútímaseðlabanka og þar segir hann, með leyfi forseta:

,,Á allra síðustu áratugum hafa átt sér stað nánast byltingarkenndar breytingar á hagfræðikenningum um markmið, verklag og skipulag seðlabanka. ... Þetta á einkum við peningastjórn en sams konar bylting er nú hafin varðandi það hlutverk Seðlabanka að varðveita stöðugleika fjármálakerfisins. Í þessari grein verður sjónum einkum beint að mótun og framkvæmd peningastefnu.``

Síðar segir, með leyfi forseta:

,,Stjórn peningamála felur í sér aðgerðir seðlabanka til að hafa áhrif á peningamagn í umferð og/eða vexti á peningamarkaði með tiltekin þjóðhagsleg markmið að leiðarljósi, svo sem stöðugt verðlag, stöðugt gengi, viðunandi atvinnustig eða hagvöxt.``

Í þessari ágætu grein segir enn fremur, með leyfi forseta:

,,Það eykur árangur við stjórn peningamála ef seðlabankar hafa fullt sjálfstæði til þess að beita stjórntækjum sínum til að ná markmiði um verðstöðugleika. Það eiga hins vegar að vera stjórnvöld sem skilgreina markmið seðlabanka en ekki þeir sjálfir.`` --- Það á auðvitað að gera með lögum frá þinginu.

Síðan segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Hin hliðin á sjálfstæði seðlabanka er að þeir standi reikningsskil gerða sinna í tvíþættri merkingu, þ.e. að þeir séu gerðir ábyrgir fyrir að ná þeim markmiðum sem þeim hafa verið sett og að þeir útskýri stefnuna í peningamálum fyrir stjórnvöldum og almenningi.``

Ég get tekið undir þau sjónarmið sem þarna koma fram og ég held að þau stangist nokkuð á við 4. gr., sem ég var að lesa áðan, þar sem fram kemur, eins og segir í þessari grein, að það sé eitt meginhlutverk Seðlabankans að vinna að því að sú stefna sem ríkisstjórnin markar nái tilgangi sínum. Það sýnir ekki mikið sjálfstæði hjá Seðlabankanum þegar lög sem Seðlabankinn vinnur eftir innihalda slík ákvæði.

Það er einn kafli í grein Más Guðmundssonar sem fjallar um sjálfstæði seðlabanka alveg sérstaklega. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Margvísleg rök hafa verið færð fyrir því að seðlabankar séu sjálfráðir að beita stjórntækjum sínu til að ná þeim markmiðum sem stjórnvöld setja þeim. Þetta er auðvitað að því tilskildu að markmiðin séu á valdi þeirra, þ.e. séu markmið eins og stöðugt verðlag, tiltekin lág verðbólga eða stöðugt gengi. Skilyrði þess að seðlabanki geti talist sjálfstæður í ofangreindri merkingu er að hann ákveði sjálfur beitingu stjórntækja sinna, að honum sé óheimilt að taka við fyrirmælum frá stjórnvöldum nema að undangengnu ákveðnu ferli, að bann sé við beinum lánveitingum hans til ríkissjóðs og að hann þurfi ekki að vinna að öðrum markmiðum nema að svo miklu leyti sem þau samræmast meginmarkmiði bankans.``

Síðan segir:

,,Sjálfstæður seðlabanki getur hins vegar náð betri árangri hvað verðbólgu varðar án þess að það sé til lengdar á kostnað atvinnustigs. Hin hagnýtu rök fyrir seðlabankasjálfstæði felast hins vegar í því sem ég sagði hér að framan um tímatafir og ákvörðunartöku við skilyrði óvissu. Ákvarðanir í peningamálum krefjast mats á ástandi og horfum í efnahagsmálum og að langtímasjónarmið séu höfð að leiðarljósi.``

Síðar í greininni segir, með leyfi forseta:

,,Hvað iðnríki varðar virðast þær [þ.e. tilraunir] benda til þess að aukið lagalegt seðlabankasjálfstæði fari með tölfræðilega marktækum hætti saman við lægri verðbólgu ...``

Þetta eru náttúrlega veigamikil rök fyrir því sem ég hef verið að segja, þ.e. að auka eigi sjálfstæði Seðlabankans.

Aðalhagfræðingur Seðlabankans heldur því fram, eins og ég vitnaði til áðan, að nokkuð skorti á ,,að Seðlabanki Íslands hafi sams konar lagalegt sjálfstæði og best gerist í þróuðum iðnríkjum. Bankinn hefur ekki eitt skýrt markmið með peningastjórn sinni heldur skal hann bæði stuðla að því að ,,verðlag haldist stöðugt og framleiðslugeta atvinnuveganna sé hagnýtt á sem fyllstan og hagkvæmastan hátt``.``

Í lokin ætla ég að vitna til þess sem hann segir hér, með leyfi forseta: ,,Komi upp ágreiningur á milli Seðlabanka og ríkisstjórnar skal bankinn að lokum fylgja stefnu ríkisstjórnarinnar, jafnvel þótt það stangist á við markmið um stöðugt verðlag.``

Þannig er túlkun aðalhagfræðingsins á lögunum um Seðlabankann.

Og síðan segir: ,,Bankastjórn Seðlabanka Íslands ákvarðar hins vegar stýrivexti bankans. Það er þó innan þess ramma sem sameiginleg stefnumörkun ríkisstjórnar og Seðlabankans í gengismálum setur.``

Mér finnst þetta vera athyglisverð grein og þetta er einmitt það sem við ættum að vera að fjalla um, þ.e. fagleg umræða um stöðu Seðlabankans og hvernig við getum aukið sjálfstæði hans. Hæstv. forsrh. fór ekkert inn á það í sínu stutta máli áðan þegar hann mælti fyrir frv. sem ég hélt reyndar að væri í verkahring hæstv. viðskrh. og kom mér nokkuð á óvart að hæstv. forsrh. væri að mæla fyrir þessu frv. vegna þess að enn er nú yfirstjórn Seðlabanka Íslands í höndum hæstv. viðskrh.

Ég vil spyrja hæstv. forsrh. hvort hann telji ekki að til greina komi að fara í það verkefni að styrkja meira sjálfstæði Seðlabankans en er í lögum um Seðlabanka Íslands og hvort hann geti ekki verið sammála mér og því sem kemur fram hjá Má Guðmundssyni, að töluvert skorti á það að Seðlabanki Íslands hafi sams konar lagalegt sjálfstæði og best gerist í þróuðum iðnríkjum og hvort hann telji þá ekki tímabært að taka á því máli og auka sjálfstæði Seðlabankans. Við þyrftum líka að fara í þá umræðu, og ég spyr hæstv. ráðherra um það hvort hann telji ekki rétt og eðlilegt að það sé bara einn bankastjóri í Seðlabankanum en ekki þrír eins og nú er. Reyndar virðist Seðlabankanum ganga alveg ágætlega þó að um nokkurn tíma hafi bara verið tveir bankastjórar í Seðlabankanum. Ég spyr hæstv. ráðherra um það líka hvort hann sjái einhver rök fyrir því, miðað við verkefni Seðlabankans, að þarna séu þrír bankastjórar, og hvort það sé ekki eðlilegra og í samræmi við nútímastjórnun að það sé bara einn bankastjóri ábyrgur í Seðlabankanum með líkum hætti og gert hefur verið í Landsbankanum, en þar er einn bankastjóri sem ber ábyrgð.

Síðan ætti sjálfstæði Seðlabankans að vera með þeim hætti að það ætti ekki að vera ráðherra sem skipar bankastjóra. Ég held að það séu líka úreltir stjórnunarhættir að ráðherra geri það. Ég tel að það ætti að vera bankaráðið sem skipi bankastjóra og væri fróðlegt að fá álit hæstv. forsrh. á því.

[13:45]

Ég vil segja það í lokin, herra forseti, að mér kom sú tillaga hæstv. forsrh. um að leggja til að málið færi í allshn. mjög á óvart. Við erum að fjalla um Seðlabankann og þó að eingöngu sé verið að fjalla um yfirstjórnarþáttinn í Seðlabankanum þá hafa lög um Seðlabankann farið í efh.- og viðskn. Ég er sannfærð um að efh.- og viðskn. vildi gjarnan fá tækifæri til þess í tengslum við þetta frv. að ræða frekar um aukið sjálfstæði Seðlabankans og hvort ekki væri þá tímabært að taka upp samhliða þeirri breytingu sem við ræðum, hugmyndir um breytingar á lögunum í þá veru sem ég hef talað fyrir. Þess vegna legg ég til, herra forseti, að þetta frv. fari til efh.- og viðskn. og tel það miklu eðlilegra en tillögu hæstv. forsrh.

Herra forseti. Það hefur komið mér á óvart á þessum degi, og það geta verið lokaorð mín, að fáir þingmenn Framsfl. hafa séð ástæðu til að vera viðstaddir umræðuna, bæði um Byggðastofnun í morgun og um Seðlabankann hér og nú, af því að tilgangur beggja þessara frv. er að leysa innanbúðarvandamál hjá Framsfl.

Hæstv. viðskrh. kom núna við umræðuna eftir hádegi af því að hann var kallaður til þess og eini framsóknarmaðurinn hér inni er bundinn í forsetastól. Það er því mjög sérstakt að þeir sjá ekki ástæðu til þess að vera við umræðuna. Kannski er hlálegast af öllu þar sem þessi frv. hafa þann tilgang að leysa innanbúðarvanda hjá Framsfl. að þau virðast ekki gera það. Þessi frv. virðast ekki leysa þennan vanda. (SJS: Hætta við þetta bara.) Já, best er að hætta bara við það. Það fyndist mér koma vel til greina vegna þess að vandamálið sem á að leysa --- hæstv. félmrh. hefur lýst því yfir að hann sé mjög ósáttur við (Gripið fram í.) þá stöðu sem honum er búin í öllum þessum hrossakaupum á milli stjórnarflokkanna.

Ég hef lagt fram ákveðnar spurningar fyrir hæstv. forsrh. sem ég vænti að hann svari við umræðuna og ítreka tillögu mína um að málið gangi til efh.- og viðskn.