Seðlabanki Íslands

Fimmtudaginn 02. desember 1999, kl. 13:52:07 (2180)

1999-12-02 13:52:07# 125. lþ. 34.2 fundur 214. mál: #A Seðlabanki Íslands# (breyting ýmissa laga, yfirstjórn) frv. 103/1999, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 125. lþ.

[13:52]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki forsn. að ákveða til hvaða fagnefndar þetta mál fari. Það er flutningsmanna að gera tillögur um slíkt og ef fram koma fleiri tillögur en ein, þá er þingsins að skera úr um það og ekkert á móti því í sjálfu sér.

Ég var ekki að þvertaka fyrir að endurskoða mætti lög um Seðlabanka til að efla sjálfstæði hans að einhverju marki. Ég nefndi dæmi um það þar sem nokkuð kynni að skorta á í þeim efnum. Ég sagði hins vegar að ég vildi ekki eins og sumir --- ég hef því miður ekki lesið þá grein sem hv. þm. vitnar til --- en sumir fræðimenn hafa nánast viljað gera Seðlabankann að ríki í ríkinu. Ég er lýðræðissinni og ég vil að stjórnvöld á hverjum tíma og þingið hafi úrslitaáhrif en ekki Seðlabankinn sem almenningur nær ekki til ef það kemur upp deila þar. Þá vil ég frekar að sá aðili sem almenningur nær til hafi úrslitaáhrif en friðhelgur seðlabankastjóri eða seðlabankastjórar. Og þótt talað sé um ábyrgð í grein þessa ágæta hagfræðings, þá veit ég ekki nákvæmlega hvernig sú ábyrgð á að lýsa sér. Við stjórnmálamennirnir þurfum sæta ábyrgð í kosningum, ábyrgð gagnvart þinginu o.s.frv. en stundum sér maður ekki þessar stofnanir bera neina ábyrgð þegar upp er staðið. Menn sitja þar lon og don áratugum saman hvernig sem allt ruggar og veltist en það verður þó ekki sagt um okkur hér. Við þurfum að sækjast eftir nýju umboði á fjögurra ára fresti.

Sem lýðræðissinni vil ég frekar að úrslitaáhrifinn liggi hjá ríkisstjórn sem þarf að svara til saka gagnvart Alþingi og síðan kjósendum en háfriðhelgum seðlabankastjórum eða seðlabankastjóra með fullri virðingu fyrir þeim.

Ég tel að þótt í framhaldinu sé sjálfsagt að fara yfir það og skoða, ekki við meðferð þessa frv. sem er hreint formsatriðisfrumvarp, þá sé sjálfsagt að setja á laggirnar athugun á því hvernig við gætum farið yfir lög um Seðlabanka og ég er tilbúinn að standa að því.