Seðlabanki Íslands

Fimmtudaginn 02. desember 1999, kl. 14:17:00 (2186)

1999-12-02 14:17:00# 125. lþ. 34.2 fundur 214. mál: #A Seðlabanki Íslands# (breyting ýmissa laga, yfirstjórn) frv. 103/1999, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 125. lþ.

[14:17]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svörin og kannski er ekki ástæða til að gera frekari athugasemdir við það þó að þessi óvissa sé enn uppi og ekki virðist frá því gengið hvernig farið verði með þetta mál. Mig fýsir mjög að heyra svör hæstv. viðskrh. og þá útskýringar á því hvers vegna þetta hefur dregist svo sem raun ber vitni, hverjar eru ástæðurnar, hvaða rök standa til þess og telur hæstv. viðskrh. að hann hafi efnt embættisskyldur sínar eins og vera ber með hliðsjón af ákvæðum 22. gr. laga um Seðlabankann, að hafa vanefnt það á annað ár að fylla í það skarð sem þarna myndaðist? Hefði þá ekki, þó gripið hefði verið til heimildar 3. mgr., a.m.k. verið rétt að ráða mann tímabundið þarna til starfa þó að fyrir því séu svo sem engin sérstök rök og ekkert sem mælir með neinu öðru en því að um venjubundna hefðbundna ráðningu yrði að ræða í stað þess sem lét af störfum. Ég hef hvorki komið auga á né heyrt neitt koma fram í þessu máli sem réttlætir þær vanefndir sem á þessu hafa orðið. Kannski kann hæstv. viðskrh. einhverjar skýringar á því sem hann getur látið hér uppi.