Seðlabanki Íslands

Fimmtudaginn 02. desember 1999, kl. 14:19:40 (2188)

1999-12-02 14:19:40# 125. lþ. 34.2 fundur 214. mál: #A Seðlabanki Íslands# (breyting ýmissa laga, yfirstjórn) frv. 103/1999, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 125. lþ.

[14:19]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Fróðlegt væri að vita hversu gamalt samkomulag stjórnarflokkanna er um að það skuli vera þrír bankastjórar. Hversu gamalt er það samkomulag? Er það frá stjórnarmyndun í vor? Er það frá síðasta kjörtímabili eða er það frá því núna í aðdraganda þess að þetta frv. var lagt fram? Ef það samkomulag er gamalt og hefur legið fyrir allan tímann eru náttúrlega enn síður nokkur rök fyrir því að vanefna það að ráða í hina lausu stöðu. Frv. gerir ekki ráð fyrir neinum breytingum á þeim ákvæðum gildandi laga um Seðlabankann. Í raun og veru er afgreiðsla þessa frv. algjörlega óháð því hvernig skipan mannaráðninga inn í bankastjórn Seðlabankans er, það er alls ekki opnað neitt fyrir þá grein laganna. Að því leyti til gætu menn gert það strax eða síðar, breytir engu um það. Auðvitað er ósköp dapurleg röksemdafærsla hjá hæstv. viðskrh. að koma og segja: Það hefur áður gerst að það hafi ekki verið ráðið strax þegar losna stöður, það er að vísu ekki til fyrirmyndar, en það hefur áður gerst. Ýmsar ástæður liggja þar að baki, sagði hæstv. viðskrh., sem ég ætla ekki að tíunda hér. Jahá, hverjar eru þessar ýmsu ástæður? Er það feimnismál? Er það nefnilega þannig að þar sé komið að hinum viðkvæma bletti í málinu? Auðvitað er það svo. Það er spurningin um það hver fær stólinn og hvernig það kemur inn í hrossakaup stjórnarflokkanna, kaupskap stjórnarflokkanna, þar er komið að vanda málsins, kjarnanum í þessu öllu saman. Þetta er hluti af öllum þessum víðtæku viðskiptum, hrossakaupum eða hnífakaupum eða hvað menn kjósa að kalla það, og hafa verið valdar ýmsar nafngiftir og þetta er hluti af því. Þess vegna hefur það gerst að menn hafa vanefnt lögin um Seðlabankann talsvert á annað ár. Nei, hæstv. viðskrh., það er sko ekki til fyrirmyndar.