Seðlabanki Íslands

Fimmtudaginn 02. desember 1999, kl. 14:21:51 (2189)

1999-12-02 14:21:51# 125. lþ. 34.2 fundur 214. mál: #A Seðlabanki Íslands# (breyting ýmissa laga, yfirstjórn) frv. 103/1999, viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 125. lþ.

[14:21]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að enginn hv. þm. hafi komið jafnoft í þennan ræðustól og hv. þm., Steingrímur J. Sigfússon, sem hefur útbúið hverja pólitísku fléttuna um hrossakaup stjórnarflokkanna á fætur annarri. Ekki þarf að fara langt aftur í tímann til að minnast mikilla og langra ræðna sem voru misjafnlega skemmtilegar og merkilegar hjá hv. þm., um Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, Landsbankann, Búnaðarbankann og um Seðlabankann, þar sem hv. þm. hefur stillt hverjum einstaklingnum í samfélaginu upp á fætur öðrum sem ættu að fara í þessa og hina stöðuna sem stjórnarflokkarnir ætluðu að manna. Þannig væri lengi hægt að telja en það hefur komið á daginn að hv. þm. hefur ekki reynst sannspár í neinu af því sem hann hefur haldið fram og í raun og veru undirstrikar sá málflutningur sem hv. þm. hefur viðhaft raunverulega allan málflutning hv. þm. hér á Alþingi, það er ekkert að marka þær myndir sem hv. þm. dregur upp.