Seðlabanki Íslands

Fimmtudaginn 02. desember 1999, kl. 14:22:55 (2190)

1999-12-02 14:22:55# 125. lþ. 34.2 fundur 214. mál: #A Seðlabanki Íslands# (breyting ýmissa laga, yfirstjórn) frv. 103/1999, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 125. lþ.

[14:22]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Þetta var stórbrotið og efnislegt svar hjá hæstv. viðskrh. og greinilegt að ég kom við snöggan blett á sálinni þegar ég nefndi að þetta væri hluti af þessum kaupskap stjórnarflokkanna og þann vandræðagang allan með þennan lausa bankastjórastól. Vandi stjórnarflokkanna er sá að öll þjóðin horfir upp á þetta og hlær að þessu og stjórnarflokkarnir hafa, og það mega þeir eiga, í raun og veru opinberað svo berlega kaupskap sinn í þessum tvílembingum, með þessum tvílembingsfrumvörpum sem eru spyrt saman og eiga að fara saman í gegnum þingið af því að það er yfirlýst samkomulag stjórnarflokkanna um þessa verslun að forsrh. fær Seðlabankann og Framsókn fær Byggðastofnun. Þetta blasir við hverjum manni. Hæstv. viðskrh. getur því komið hér og reynt að gera lítið úr málflutningi mínum en það mun engu breyta um þá mynd sem blasir við þjóðinni í þessum efnum, og ráðningarnar undanfarin ár tala líka sínu skýra máli. Það vita allir hluti af hvaða vandræðagangi þetta mál er og alveg sérstaklega hjá Framsóknarflokknum og er ánægjulegt að framsóknarmaður hefur nú í fyrsta skipti hafst upp í ræðustólinn í umræðunni, um Byggðastofnun og Seðlabankann, og það í þessu rismikla andsvari sem hæstv. viðskrh. flutti áðan. Ég held að ekki þurfi að hafa fleiri orð um þetta, þessi ósköp tala fyrir sig sjálf, þessi málatilbúnaður stjórnarflokkanna eins og hann birtist okkur, og er þeim sjálfum til mestrar vansæmdar sem fyrir honum standa.