Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

Fimmtudaginn 02. desember 1999, kl. 14:31:31 (2192)

1999-12-02 14:31:31# 125. lþ. 34.4 fundur 228. mál: #A vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum# (gjald fyrir veiðikort) frv. 131/1999, MF
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 125. lþ.

[14:31]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. sem lætur svo sem ekki mikið yfir sér. Það er aðeins tvær greinar. Um seinni hluta 1. gr., þar sem fjallað er um námskeið fyrir þá sem stunda veiðar á villtum dýrum, að þeir skuli hafa lokið prófi sem sanni hæfni þeirra, er í raun allt gott að segja. En fyrri hluti 1. gr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Gjald fyrir veiðikort skal vera 1.900 kr. á ári.``

Þá er búið að breyta grein sem áður hljóðaði svo, með leyfi forseta:

,,Gjald fyrir veiðikort skal notað til rannsókna og stýringar á stofnum villtra dýra, auk þess að kosta útgáfu kortanna. Umhverfisráðherra ákveður gjald fyrir veiðikort og skal það að hámarki nema 1.500 kr. á ári og taka breytingum í samræmi við framfærsluvísitölu, sbr. lög nr. 5/1984.``

Þessi grein var samþykkt hér 19. maí 1994. Síðan þá má segja að þetta 1.500 kr. gjald sé komið upp í 1.600 miðað við það að það hafi tekið eðlilegum breytingum í takt við framfærsluvísitölu. Því er um hækkun að ræða frá því sem var um 300 kr. Það er reiknað með því að 100 kr. af því gjaldi séu í takt við framfærsluvísitölu og síðan muni 200 kr. fara til rannsókna á rjúpnastofninum í samræmi við ákvörðun ríkisstjórnar þess efnis að 4 millj. verði lagðar til rannsókna á rjúpnastofninum á næstu tveimur árum.

Frá því að lögin um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum voru samþykkt og sett voru á þessi veiðikort og gjaldtaka fyrir þau, þá hafa komið inn í veiðikortasjóð á hverju ári verulegar fjárhæðir. Árið 1995 voru greidd kort 11.208, innkoma 17 millj. kr. Rekstur á sjóðnum þá, þ.e. veiðistjóraembættinu eða sem sagt það sem notað er í rekstur beint af þessu er um 7,1 millj. og í veiðikortasjóði er þá afgangurinn upp á 9,9 millj. kr. Árið 1996 eru greidd kort 12.496, innkoman 18,7 millj., reksturinn 6,9 millj. og í veiðikortasjóð fara 11,8 millj. kr. Á árinu 1997 eru greidd kort 11.202, innkoman 16,9 millj., reksturinn það árið er 6,3 millj. og 10,6 millj. fara í veiðikortasjóð. Árið 1998 eru greidd kort 10.556, innkoma 16,8 millj., reksturinn 4,7 millj. Í veiðikortasjóð það árið fara 12,1 millj. kr. Þarna er því um verulegar fjárhæðir að ræða sem áttu samkvæmt umræðunni sem var 1994 um þessa 11. gr. að fara nær eingöngu til rannsókna á villtum fuglum og villtum spendýrum. Í umræðunni kom mjög skýrt fram að þáverandi framlög til rjúpnarannsókna sem voru 3--4 millj. á ári, yrðu ekki skorin niður. Þrátt fyrir að þarna væri um að ræða væntanlega viðbót þá yrðu ekki skorin niður þau framlög sem fyrir voru. En það var nú samt gert fljótlega, ég held bara strax á næsta ári ef litið er til þess að til rannsókna fara úr þessum sjóði á árinu 1995 9,4 millj., innkoman er 17 millj., árið 1996 fara 6,8 millj. til rannsókna og þá er innkoman 18,7. Árið 1997 fara til rannsókna 16,3 millj., en 16,9 millj. er innkoman og 1998 fara 13,8 millj. til rannsóknaverkefna ýmissa, eins og hægt er að fá uppgefið frá veiðistjóra, en á árinu 1998 er innkoman 16,8 millj. Í öllum tilvikum er innkoman töluvert miklu meiri en það sem fer til rannsókna. En vel að merkja, þá eru teknar þarna misháar fjárhæðir í rekstur milli ára og reyndar munar þar töluverðu, þannig að 1995 fara 7,1 millj. kr. í rekstur en 1998 4,7. Árið 1999 er ekki komin tala um útgefin kort eða greidd kort þannig að innkoman er ekki ljós.

Þáltill. sem hér var samþykkt um auknar áherslur á rannsóknir á rjúpnastofninum var samþykkt þannig að ég held að flestir þeir þingmenn sem voru í salnum hafi stutt tillöguna. En af hverju þarf að hækka gjald fyrir veiðikortin til þess að geta staðið við þessar 4 millj. þegar yfir 4 millj. kr. á undanförnum fjórum árum, þ.e. 1995--1998, hafa samkvæmt upplýsingum frá veiðistjóra farið til rjúpnarannsókna á hverju einasta ári? Engu að síður virðist það vera þannig að hækkunina á þessu gjaldi eigi að nota eingöngu til þess að kosta þessar rjúpnarannsóknir sem samþykktar voru með þessari þáltill. Ég verð að segja að þetta kemur mér mjög á óvart ekki síst vegna þess að í gegnum tíðina höfum við rætt svolítið um veiðikortin, um veiðisjóðinn og hlutverk þessa veiðikortasjóðs. Það var gert í fjárln. og í umhvn. og það hefur verið beðið um að fá reglur sem farið er eftir við úthlutun úr þessum sjóði. Hins vegar hefur verið mjög erfitt að nálgast þær. Ráðherra á að setja reglur um úthlutun úr þessum sjóði og það hefur ekki verið sett nein sérstök reglugerð eða sérstakar reglur hvað það varðar, a.m.k. hef ég ekki fengið upplýsingar um það. Þær eru eingöngu í reglugerð sem gefin var út 1995 af þáv. umhvrh., Guðmundi Bjarnasyni. Þar segir í 6. gr., með leyfi forseta:

,,Árlegt gjald fyrir veiðikort skal vera fimmtánhundruð krónur. Gjald þetta skal taka breytingum í samræmi við framfærsluvísitölu Hagstofu Íslands eins og hún er 1. janúar ár hvert, sbr. lög nr. 5/1984.

Gjald fyrir veiðikort skal renna í sjóð sem notaður skal til að greiða fyrir umsýslu á veiðikortum, rannsókna og stýringar á stofnum villtra dýra. Umhverfisráðherra ákveður hvernig sjóðnum skuli varið.``

Ég hef ekki fengið upplýsingar um það hvaða reglur gilda nákvæmlega um þau verkefni sem valin eru á hverju ári og eru talin styrkhæf af hæstv. ráðherra. En eins og ég segi þá hafa þessir styrkir verið allt upp í 16,3 millj. kr. Þeir fara hæst 1997 upp í 16,3 millj. en eru 1995 9,4, 1996 6,8 og 13,8 1998. Innkoman í sjóðinn er veruleg þannig að mér sýnist að það hefði verið hægt að dekka, ef svo má orða það, þann kostnað sem að hlýst af samþykkt tillögunnar um áframhaldandi rannsóknir á rjúpunni og efla þær rannsóknir sem verið hafa, innan þess útgjaldaramma sem sjóðurinn hefur.

Virðulegi forseti. Mér kemur á óvart að það skuli þurfa að hækka gjaldið á veiðikortunum, ekki síst í ljósi þess að árið 1994 þegar frv. var samþykkt og ákveðið var að standa mjög vel að rjúpnarannsóknum, því þær voru þá mjög mikið ræddar, kom fram hjá þáv. hæstv. umhvrh., Össuri Skarphéðinssyni, að þau framlög sem hefðu verið til rjúpnarannsókna yrðu ekki skert, það yrði um hreina viðbót að ræða hvað varðar þennan veiðisjóð. Þá var um að ræða 3--4 millj. kr. framlag til rjúpnarannsókna á ári hverju áður. Því kemur mér verulega á óvart, miðað við innkomu í þennan sjóð og nýtingu hans, þetta gjald sem hér er lagt á samkvæmt þessu frv., þ.e. þessi 200 kr. viðbót vegna rjúpnarannsókna. Þegar ég fer yfir þær rannsóknir sem hafa verið styrktar á undanförnum árum þá sýnist mér ágætt svigrúm til þess að mæta kostnaði af þessari þáltill. innan þess ramma sem sjóðurinn hefur í dag.