Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

Fimmtudaginn 02. desember 1999, kl. 14:41:44 (2193)

1999-12-02 14:41:44# 125. lþ. 34.4 fundur 228. mál: #A vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum# (gjald fyrir veiðikort) frv. 131/1999, umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 125. lþ.

[14:41]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Það er alveg ljóst að það er mjög mikið hagsmunamál fyrir veiðimenn að rjúpnarannsóknir verði efldar. Veiðimenn hafa lagt mjög mikla áherslu á það við umhvrn. Þeir fögnuðu því mjög þegar Alþingi samþykkti þáltill. á síðasta þingi um að rannsaka vetrarafföll rjúpu. Sú rannsókn kostaði um 11 millj. kr. og það á að deila henni, að mig minnir, á u.þ.b. þrjú ár. Hún hófst nú í haust með 1 millj. kr. framlagi úr ríkissjóði. Á næsta ári er áætlað að um 4 millj. kr. fari í þessa rannsókn. Hækkunin á veiðikortunum núna er 200 kr. út af rannsókninni en 100 kr. út af vísitölunni, þ.e. 200 kr. út af rannsókninni á hvert veiðikort á að standa undir hluta af þessari rannsókn. Þessi hækkun dekkar hana ekki alla. Það koma einungis 2 millj. í heild inn í veiðikortasjóðinn í gegnum þessa 200 kr. hækkun. Því vantar áfram þessar 2 millj. sem eftir standa og mér er kunnugt um að fjárln. er að skoða þetta í sinni vinnu.

Það stendur ekki til að minnka fjárframlög til rjúpnarannsókna eins og mér fannst að mætti skilja af máli síðasta ræðumanns heldur stendur einmitt til að stórauka framlög til rjúpnarannsókna á næstu árum vegna þessarar mikilvægu rannsóknar okkar á vetrarafföllunum. Hún er, eins og menn hafa heyrt hér áður og nýlega, gerð til þess að reyna að sanna hver vetrarafföllin eru og hvað skotveiðimenn hafa mikil áhrif á rjúpnastofninn með veiðum sínum. Ég vil bara ítreka að þessi rannsókn er umfangsmikil og það stendur alls ekki til að lækka gjöld til rjúpnarannsókna heldur þvert á móti að hækka þau.

Hins vegar er það rétt sem fram kom í máli síðasta ræðumanns að það væri æskilegt að setja sterkari reglur um úthlutun úr sjóðnum. Þessi mál hafa verið kynnt fyrir mér í ráðuneytinu og það er alveg ljóst að nánast allur sjóðurinn er bundinn í verkefnum sem hafa tekið nokkurn tíma. Þar eru t.d. rjúpnarannsóknir með 4,6 millj. kr. ef ég tek bara yfirstandandi ár. Í endur og gæsir fara aðrar 4, að þá eru komnar 8,6 millj. í þessar rannsóknir. Síðan er verið að rannsaka refi, minka og hreindýr o.fl. Þetta eru verkefni sem taka nokkur ár þannig að fé sjóðsins er mjög bundið.

[14:45]

Hins vegar hafa ekki verið settar skýrar reglur um úthlutun úr veiðikortasjóði. Náttúrufræðistofnun Íslands hefur fengið meginhlutann í rannsóknir sínar. Mig minnir að einungis einu sinni hafi verið auglýst eftir umsóknum í veiðikortasjóðinn. Það var í tíð síðasta umhvrh. hæstv., Guðmundar Bjarnasonar. Mig minnir að aðeins einu sinni hafi verið auglýst eftir umsóknum og síðan verið úthlutað. Ýmsir hafa bent á að æskilegt væri að setja reglur til að úthluta eftir úr veiðikortasjóði. Það er til skoðunar núna í ráðuneytinu. Við höfum reyndar beðið um tillögur þar að lútandi og væntanlega getum við sett skýrari reglur um úthlutun á næstunni. Það er mjög mikilvægt að ekki skapist tortryggni gagnvart þessari úthlutun og engin ástæða til þess. Ég tel að afar vel sé farið með þetta fé sem nú er í veiðikortasjóði og hann sé mjög mikilvægur.