Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

Fimmtudaginn 02. desember 1999, kl. 14:46:32 (2194)

1999-12-02 14:46:32# 125. lþ. 34.4 fundur 228. mál: #A vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum# (gjald fyrir veiðikort) frv. 131/1999, MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 125. lþ.

[14:46]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að hæstv. ráðherra skuli taka undir það að nauðsynlegt sé að setja reglur sem kveðið var á um árið 1994 að yrðu settar og núna er árið 1999. Núv. hæstv. umhvrh. mun örugglega, miðað við málflutning hennar, hafa meiri áhuga á að setja skýrar reglur um úthlutun úr sjóðnum en fyrirrennari hæstv. ráðherra í embætti. Ég fagna því vegna þess að það er ekki eins og þetta hafi ekki verið tekið upp. Nánast á hverju ári hefur verið kallað eftir því í umhvn. eða í fjárln. að skýrar reglur giltu um úthlutun úr þessum sjóði. Innkoman er veruleg á ári hverju og mun aukast ef frv. til laga sem hér er til umræðu verður samþykkt.

Ég verð, virðulegi forseti, í þessu stutta andsvari að biðja ráðherra um nánari skýringar á hverjar þessar stórauknu fjárveitingar til rjúpnarannsókna eru. Er verið að tala um fjárveitingu til viðbótar við þær 4,6 millj. sem veittar hafa verið á ári hverju síðan sjóðurinn hóf starfsemi árið 1995 og 3--4 millj. árlega á árunum þar á undan? Er þá verið að tala um að á næsta ári verði varið til rjúpnarannsókna 8,6 millj. miðað við 4 millj. núna í samræmi við þessa tillögu? Ef svo er ekki þá er verið að draga úr frá því 1998 þegar rjúpnarannsóknir fengu 4,6 millj. Öðruvísi get ég ekki skilið þetta. Þegar lagðar eru til 4 millj. þá er það minna nema það sé lagt við það sem áður var.