Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

Fimmtudaginn 02. desember 1999, kl. 14:51:53 (2198)

1999-12-02 14:51:53# 125. lþ. 34.4 fundur 228. mál: #A vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum# (gjald fyrir veiðikort) frv. 131/1999, PHB
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 125. lþ.

[14:51]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Það líður varla sú vika að við ræðum ekki um sjóði, um eitthvert gjald í einhvern sjóð sem á að hækka, endalaust og stöðugt. Það eru alltaf einhverjir hér á hv. Alþingi sem hafa vit á þessum sjóðum, einn og einn þingmaður, flestir aðrir vita ekkert um þetta. Í grg. með frv. segir um veiðikortasjóð: ,,Fjármunir sjóðsins hafa þó ekki dugað til rannsókna á öllu sem nauðsynlegt er að rannsaka til þess að hægt sé að segja með vissu fyrir um ástand stofna villtra dýra og meta veiðiþol þeirra.``

Hver ákveður hvað er nauðsynlegt? Hver segir að þörf sé á þessum rannsóknum? Hver segir að rannsóknarstofnanir ríkisins, Háskólinn og aðrir slíkir, eigi ekki að rannsaka þetta? Hver segir að það séu veiðimenn sem eigi að borga rannsóknirnar? Hvar er kostnaðareftirlitið? Hver gætir að því að rannsóknirnar séu eins ódýrar og hægt er? Enginn. Það hefur enginn áhuga á þessu. Það á bara að hækka gjaldið um 300 kr. Það er nú ekki neitt í þetta skiptið, það er hækkað um 300 hér og 300 þar. Svona gengur þetta stöðugt. Svo er búið til kerfi utan um þetta. Ég geri ráð fyrir að til sé sjóðstjórn yfir þessum sjóði, hún er væntanlega með stjórnarlaun o.s.frv. Svona er kerfið blásið út, hægt og rólega, hér og þar, daglega hér á hv. Alþingi. Ég vara við þessari þróun, herra forseti.