Svæðisskipulag fyrir suðvesturhluta landsins

Fimmtudaginn 02. desember 1999, kl. 14:54:40 (2199)

1999-12-02 14:54:40# 125. lþ. 34.8 fundur 183. mál: #A svæðisskipulag fyrir suðvesturhluta landsins# þál., Flm. HGJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 125. lþ.

[14:54]

Flm. (Helga Guðrún Jónasdóttir):

Virðulegi forseti. Skipulagsmál eru einn veigamesti þáttur opinberrar stjórnsýslu, sannkölluð slagæð hins viðkvæma þjóðarlíkama. Markmið þeirrar þáltill. sem hér er flutt er tvíþætt, annars vegar að beina athygli stjórnvalda að því mikla og nána sambandi sem er á milli skipulagsmála og byggða og atvinnuþróunar. Hins vegar er það von okkar flm. að með því að koma á fót samræmdu svæðisskipulagi fyrir Suðvesturland sem og aðra einstaka landshluta, megi nýta mun betur það verulega fjármagn sem árlega er varið til skipulagsmála á báðum stjórnsýslustigum, þ.e. á vegum sveitarfélaga og ríkisvalds.

Skipulagsmálum er í einföldum dráttum þannig háttað að hvert einstakt sveitarfélag annast þau. Á undanförnum árum hefur færst í vöxt að sveitarfélög sem mynda eðlilega skipulagsheild taki höndum saman um gerð svæðisskipulags. Með bættum samgöngum og stækkandi atvinnusvæðum hafa slíkar heildir vaxið. Nærtækustu dæmi þessa er samvinna sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og á Reykjanesi.

Margt ýtir undir aukna samvinnu sveitarfélaga í skipulagsmálum. Ég vek athygli á því að nánari athugun á þeirri þróun leiðir berlega í ljós þörfina á að stjórnvöld greiði sem best þau mega fyrir samvinnu sveitarfélaganna. Af mörgu er að taka. Ég nefni sem dæmi að lögboðnum verkefnum sveitarfélaga fer fjölgandi og sér hvergi fyrir endann á því. Við bætist að ör efnahagsþróun síðustu áratuga kallar á sífellt markvissari og hraðari uppbyggingu helstu grunnþátta samfélagsgerðarinnar. Sveitarfélög munu því í auknum mæli leita eftir hlutdeild í hinum stærri skipulagsheildum, fyrst og fremst með það fyrir augum að atvinnu- og byggðamál innan vébanda þeirra breytist ekki til hins verra. Á einföldu máli þýðir þetta að þjóðfélagsþróunin er smám saman að sprengja utan af sér þann ramma sem löggjafinn hefur látið einstökum sveitarfélögum í té utan um skipulagsvinnu sína.

Virðulegi forseti. Þáltill. gerir ráð fyrir að stækka þann landfræðilega ramma sem sveitarfélögin hafa í dag utan um skipulagsgerð. Með stærra skipulagi má skjóta styrkari stoðum undir svæðisbundna hagþróun sem og efnahagsþróunina í heild sinni. Slíkt víkkað svæðisskipulag opnar mönnum nýjar leiðir í atvinnu- og þróunarmálum, óháð því til hvaða hluta landsins er litið. Þetta má e.t.v. kalla landshlutaskipulag en í eldri lögum er stuðst við það heiti. Landshlutaskipulag eða samræmt svæðisskipulag, eins og það er nefnt í þáltill., felur þrennt í sér:

Í fyrsta lagi felur slíkt skipulag í sér nægilegt svigrúm fyrir langtímahugsun í skipulagsmálum. Framtíðarsýn er frumforsenda þess að afrakstur skipulagsvinnunnar sé í samræmi við þær væntingar og þarfir sem til staðar eru hverju sinni. Í þessu samhengi langar mig að nefna sem dæmi umræður um svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins. Þar hafa tvær lausnir eða leiðir borið hæst, annars vegar svonefnd ,,suðurleið`` og hins vegar ,,norðurleið``. Hér eru, virðulegi forseti, mikilvægar ákvarðanir í deiglunni um það í hvora áttina höfuðborgin skuli stækka. Niðurstaða þeirra umræðna mun hafa veruleg langtímaáhrif á aðkomuleiðir dreifbýlisins að höfuðborgarsvæðinu sem og margar aðrar stórar skipulagsákvarðanir í framtíðinni. Við hljótum að spyrja hvernig skynsamlegasta leiðin verði fundin með tilliti til þeirrar gífurlegu fjárfestinga sem í húfi eru svo að ekki sé minnst á þá eignatilfærslu og byggðaröskun sem röng ákvörðun mun óhjákvæmilega hafa í för með sér.

Í öðru lagi getur landshlutaskipulag gert mönnum kleift að samræma eða samtvinna samgönguáætlanir með það fyrir augum að samgöngur í viðkomandi landshluta, í lofti, á láði eða legi, myndi samverkandi heild. Það mun stuðla að betri nýtingu þeirra fjármuna sem við verjum til samgöngumála á ári hverju. Þeir fjármunir eru, eins og hv. þm. vita, ekki litlir. Jafnframt munu samræmdar samgönguáætlanir hafa í för með sér almennt hagræði fyrir einstaklinga jafnt sem fyrirtæki og stofnanir. Margfeldisáhrifin yrðu þó einna sýnilegust í atvinnulífinu. Það er, virðulegi forseti, ótrúlegt að samgönguáætlanir hafi ekki verið samræmdar fyrir löngu. E.t.v. má rekja það beint eða óbeint til þess að of smá sveitarfélög hafa frá fornu farið myndað grunn allrar skipulagsvinnu í landinu. Færa má sterk rök fyrir því að sú þrískipting sem ríkt hefur í gerð samgönguáætlana hafi ýtt undir óhagræði sem atvinnuvegir jafnt sem launþegar hafa mátt standa straum af. Í sumum tilvikum er ekki óvarlegt að álykta að það hafi orðið atvinnu- og byggðaþróun tiltekinna svæða um megn að standa undir þeim viðbótarkostnaði sem slíkt óhagræði hefur í för með sér.

[15:00]

Þrískipting samgöngumála í hafnarmál, flugmál og vegamál, á sér ekki eðlilega uppsprettu að mínu mati. Hér er við nokkurs konar stofnanatæknilega verkaskiptingu að etja, ef svo má að orði komast, virðulegi forseti, sem ýtir undir innbyrðis togstreitu hlutaðeigandi um það takmarkaða fjármagn sem til skiptanna er. Samgöngur verður að skoða sem heild miðað við það umhverfi sem þær eiga að þjóna og það fjármagn sem handbært er. Hér er mikið í húfi samanber þau verulegu áhrif sem umbætur í samgöngumálum hafa haft á byggðamálin eins og Reykjanesbrautin eða Hvalfjarðargöngin eru skýrt dæmi um. Sterka skipulagsvinnu með skýra framtíðarsýn þarf til að staðið sé rétt að ákvörðunum um svo fjárfrekar framkvæmdir og mannvirkin byggð á réttum tíma. Þá geta nýir áfangar í vegagerð sparað fjárfestingar í höfnum og flugvöllum svo að enn eitt dæmi sé tekið. Hvert sveitarfélag verður að fylgjast vel með á þessu sviði því engin sveit, ekkert hérað, ekkert hagkerfi er öflugra en samgöngukerfið segir til um.

Virðulegi forseti. Þegar öll kurl eru komin til grafar sést að markviss skipulagsvinna á grunni einstakra landshluta er líklegasta leiðin til að skila varanlegum árangri á sviði byggðaþróunar.

Í þriðja lagi langar mig, virðulegi forseti, að vekja athygli hv. þm. á meginmarkmiði landshlutaskipulags eða samræmds svæðisskipulags en það er að auka hámarksnýtingu fjármuna hvað framkvæmdir og sjálfa skipulagsvinnuna snertir sem og að gera tiltekin svæði sjálfbær í atvinnulegu og þróunarlegu tilliti, landsvæði sem eru oftast með um 50--70 km radíus. Landfræðileg stærð hvers skipulagssvæðis verður vitaskuld háð ákvörðunum um fjölda þeirra og þykir mér ekki ólíkleg niðurstaða að landshlutaskipulagssvæðin á Íslandi verði um það bil 5 talsins. Miðað við þann fjölda verður ekki um að ræða svæði sem þykja sérlega umfangsmikil á mælistiku skipulagsfræðinnar. Svæðisskipulag fyrir einstaka landshluta getur á hinn bóginn skipt afkomu viðkomandi svæðis höfuðmáli hvað varðar nýtingu fjárfestinga og mannauðs á svæðinu.

Ef litið er til suðvesturhluta landsins munu fjárfestingar og mannauður alls svæðisins mynda eina heild. Það má draga úr umframfjárfestingum í mannvirkjum, atvinnutækjum og íbúðarhúsnæði auk þess sem mennta- og þekkingarstig svæðisins nýtist betur.

Sem dæmi um mikilvægi landshlutaskipulags má nefna að ákvörðunum í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins um suðurþróun þess þýddi að styttra yrði fyrir marga suður á Keflavíkurflugvöll og eins yrði styttra fyrir Suðurnesjamenn að sækja ýmsa þjónustu til höfuðborgarsvæðisins. Norðurþróun höfuðborgarsvæðisins þýddi hins vegar t.d. að auðveldara yrði að nýta hafnirnar á Akranesi eða Hvalfirði til þjónustu við höfuðborgarsvæðið. Að stækka skipulagssvæði höfuðborgarsvæðisins upp á Hvalfjarðarströnd til Reykjaness sem og til Selfoss mun greiða mjög fyrir ákvarðanatöku um hvort þróa eigi byggð á höfuðborgarsvæðinu til suðurs eða norðurs. Greiðari svör fást við spurningum þar að lútandi þegar sjónarmið sveitarfélaganna fyrir sunnan, fyrir norðan og fyrir austan koma að þessari þýðingarmiklu vinnu.

Fleira hangir þó á spýtunni en aukið hagræði á sviði fjárfestingar og skipulagsgerðar. Mikilvægt er að skoðanir og áherslur forustumanna sveitarfélaganna varðandi lausnir á sameiginlegum verkefnum í samgöngumálum, umhverfismálum og byggðaþróunarmálum fái meira vægi gagnvart stofnunum ríkisvaldsins en nú er mögulegt. Ef ekki verða tekin álíka skref og hér er lýst til að breikka grunn skipulagsvinnunnar er hætt við að sveitarfélög grípi þegar til lausna eða aðgerða sem ná einvörðungu til þeirra eigin skipulagssvæðis. Það er óheppileg niðurstaða með hliðsjón af því að það er í senn ódýrara og skilvirkara að leysa málin á sameiginlegum vettvangi. Það sem hér er lagt til stefnir að því marki að auðvelda framgang slíkra sameiginlegra lausna og greiða fyrir samstarfi milli sveitarfélaga og viðkomandi fagráðuneyta um slíkar lausnir.

Mig langar að lokum til að árétta, virðulegi forseti, að þáltill. er vísað til ríkisstjórnar. Ástæða þess er sú að þrjú ef ekki fjögur ráðuneyti koma að þessu gagnmerka máli. Jafnframt er talsvert starf fram undan við að finna gerð landshlutaskipulags viðeigandi farveg innan stjórnsýslunnar. Ástæða er til að taka skýrt fram að við undirbúning þáltill. var leitað álits fjölda sveitarstjórnarmanna sem og embættismanna sveitarstjórna á suðvesturhluta landsins. Er skemmst frá því að segja að nær allir eða 99% þeirra sem leitað var álits hjá töldu að um brýnt framfaramál væri að ræða enda er með tillögunni stefnt að breiðara samráði um skipulagsmál en unnt er að ná innan ramma núverandi samstarfsnefnda sveitarfélaga á sviði skipulags.