Svæðisskipulag fyrir suðvesturhluta landsins

Fimmtudaginn 02. desember 1999, kl. 15:14:27 (2202)

1999-12-02 15:14:27# 125. lþ. 34.8 fundur 183. mál: #A svæðisskipulag fyrir suðvesturhluta landsins# þál., Flm. HGJ
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 125. lþ.

[15:14]

Flm. (Helga Guðrún Jónasdóttir):

Virðulegi forseti. Mig langar fyrst af öllu til að þakka fyrir þær góðu undirtektir sem þessi þáltill. hefur hlotið. Það eru kannski örfá atriði sem mig langar að tæpa á og það er þá fyrst og fremst sá misskilningur sem gætir um forgang suðvesturhluta landsins. Eins og ég kom inn á í ræðu minni liggja fyrir á höfuðborgarsvæðinu mjög stórar ákvarðanir, innan svæðisskipulagsins þar, sem varða aðgengi alls dreifbýlisins að höfuðborgarsvæðinu. Í raun og veru er verið að leggja þessa áherslu á suðvesturhluta landsins vegna þess að þar liggja fyrir ákveðnar ákvarðanir sem við flm. teljum að stærra svæði þurfi að koma að, þ.e. ákvarðanatökunni.

Jafnframt er eins og kemur fram í greinargerð þáltill. gert ráð fyrir að sams konar landshlutaskipulag verði gert fyrir aðra landshluta. Mig langar bara til að árétta það, virðulegi forseti, að frá mínum bæjardyrum séð er þetta eitt stærsta byggðamál allra tíma, þ.e. hvernig við höndlum skipulagsmálin einmitt hér og nú vegna þess að það eru í pípunum mjög stórar ákvarðanir sem varða sérstaklega landsbyggðina. Ég er því ekki sammála þeirri skoðun að hér sé á einhvern hátt verið að rasa um ráð fram eða að hér sé verið að veita Suðvesturlandi einhverja forgöngu eða sérréttindi, þvert á móti.

Ég tek jafnframt undir það sem kom fram að mjög mikilvægt er að sveitarfélögin haldi óskertu frumkvæði enda er tekið fram í greinargerð með þáltill. að þessi vinna fari fram í fullu samstarfi við sveitarfélögin og í fullri sátt við þau. Að öðrum kosti gengur þetta ekki upp. En lykilatriðið hér er kannski það, eins og hefur líka komið fram, að það eru mjög mörg sveitarfélög að vinna saman svæðisskipulög sín hér og þar og gífurlegir fjármunir fara í svæðisskipulagsvinnuna á höfuðborgarsvæðinu, á Reykjanesinu o.s.frv.

Það er spurning hvort við séum að nýta fjármagnið í skipulagsvinnunni nógu vel og hvort ekki sé lag núna að skoða málið heildstætt og athuga hvort og hvernig við finnum farveg fyrir allt það góða framtak sem er að eiga sér stað með stærri heild í huga. Við verðum að stækka rammann til að fá það svigrúm sem við þurfum til að nýta fjármagnið betur og taka líka ákvarðanir sem nýtast heildinni betur.