Svæðisskipulag fyrir suðvesturhluta landsins

Fimmtudaginn 02. desember 1999, kl. 15:17:40 (2203)

1999-12-02 15:17:40# 125. lþ. 34.8 fundur 183. mál: #A svæðisskipulag fyrir suðvesturhluta landsins# þál., KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 125. lþ.

[15:17]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil árétta það í framhaldi af orðum síðasta ræðumanns, hv. þm. Helgu Guðrúnar Jónasdóttur, að auðvitað er skynsamlegt að nýta þetta fjármagn eins vel og hugsast getur og kostur er. En það að fara að búa til samræmt svæðisskipulag yfir suðvesturhornið núna er ekki tímabært af því að ekki er búið að vinna þær smærri einingar sem undir samræmt svæðisskipulag mundu falla. Ég lít því svo á að Skipulagsstofnun sé með áætlun á borðinu sem gerir henni heimilt og kleift að gera samræmt svæðisskipulag út um allt landið í þeim einingum sem talið verður á endanum hagkvæmast að gera. En það fríar okkur ekki þeirri ábyrgð að vinna hinar smærri einingar fyrst.

Ég er ekki á því að verið sé að nýta fjármagnið illa í þessum málum. Mér sýnist vera mjög mikil vinna í gangi. Það er afskaplega spennandi að fylgjast með henni. Hún er opin og mjög aðgengileg fyrir almenning og þess vegna held ég að aukinn áhugi almennings á skipulagsmálum sé að verða til og hluti af þeim áhuga er kannski þessi þáltill. sem hér liggur fyrir. Ég held að hún sé ákveðið frumhlaup, hún sé ekki alveg tímabær og við ættum aðeins að doka við, skoða hvað kemur út úr þessum smærri svæðum þar sem verið er að vinna að svæðisskipulagi núna og svo kemur hitt. Hvort Suðvesturlandið verður fyrst, annað eða þriðja í röðinni skiptir ekki meginmáli.