Fjáröflun til vegagerðar

Föstudaginn 03. desember 1999, kl. 11:11:34 (2222)

1999-12-03 11:11:34# 125. lþ. 35.10 fundur 223. mál: #A fjáröflun til vegagerðar# (afsláttur af þungaskatti) frv. 31/2000, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 125. lþ.

[11:11]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fagna því sem hæstv. ráðherra sagði. Ég skil það svo að hann hafi fullan hug á því að vinna að þessu máli. Ég hvet til þess að það verði gert. Ég tel að það þurfi að taka á þessum málum og að það sé langt frá því fullreynt að hægt sé að finna betra kerfi en er nú við lýði.

Það sem ég átti við áðan þegar ég sagði að þessi breyting sem núna er að ganga í garð, ef þetta verður samþykkt sem hér liggur fyrir, hefði veruleg áhrif á einstaka staði þá liggur það að mínu viti í augum uppi. Þetta mun hafa mjög lítil áhrif ef menn skoða heildaráhrifin. En ekki er vafi á því að þetta hefur mikil áhrif á afkomu einstakra atvinnurekenda í þessari grein sem keyra á ákveðna staði og nýta sér og hafa nýtt sér verulega mikið þennan afslátt vegna þess hve mikið þeir keyra yfir árið. Á einstökum stöðum mun því verða veruleg hækkun á flutningsgjaldi vegna þess að þeir þurfa auðvitað að bæta sér það upp.