Fjáröflun til vegagerðar

Föstudaginn 03. desember 1999, kl. 11:12:58 (2223)

1999-12-03 11:12:58# 125. lþ. 35.10 fundur 223. mál: #A fjáröflun til vegagerðar# (afsláttur af þungaskatti) frv. 31/2000, SJS
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 125. lþ.

[11:12]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það var vægt til orða tekið hjá hæstv. fjmrh. að meðferð þessa máls hvað varðar álagningu þungaskatts sé orðin að nokkurri raunasögu og sífellt skrifast nýir kaflar í þetta mikla ritverk með nokkuð árvissri umfjöllun um málið á hinu háa Alþingi og tilheyrandi kvalræði nefndarmanna í efh.- og viðskn. sem yfir þessu hafa setið löngum stundum á undanförnum þingum. Í raun og veru er það orðið þannig að ekki er hægt að kalla það annað en hringl hvernig gengið hefur með þessi mál. En þar bera vissulega margir ábyrgð. Það er alveg rétt sem kom fram hjá hæstv. fjmrh. að það vantar ekki að menn hafi verið að glíma við þetta, bæði ráðuneytismenn og þeir sem undirbúið hafa frumvörp sem komið hafa fyrir þingið, sem og þingnefndin sjálf og þingmenn.

Það hefur vissulega líka verið ófriðlegt í kringum þetta mál og ýmsir hafa þar verið að ota sínum tota eða reka hagsmuni sína ef svo má að orði komast. Ég tel t.d. að ekki sé hægt annað en að horfast í augu við það að olíufélögin í landinu hafa haldið uppi hörðum andróðri gegn því að þungaskatturinn yrði færður yfir í olíuna. Út af fyrir sig getur maður alveg sagt að maður skilji það. Það er ekki hagsmunamál þeirra sérstaklega og þægilegra fyrir þau að vera laus við að standa í þeirri breytingu sem það hefði haft í för með sér. En það eru auðvitað ekki réttmæt og fullnægjandi rök ein og sér til þess að hverfa frá slíku þó að framkvæmdin kynni að kosta aðila af því tagi einhverja fyrirhöfn. Slíkt má ekki ráða niðurstöðu til langframa um tilhögun skattlagningar í mikilvægum málaflokki eins og þessum.

[11:15]

Sú uppgjöf sem að lokum varð hér með breytingum á árinu 1998, hygg ég, að hverfa frá því og fella úr gildi lög um upptöku olíugjalds eða færslu þungaskatts yfir í olíuna --- slík lög höfðu þá um árabil verið í gildi en gildistöku þeirra frestað ár frá ári --- var í raun mjög slæm og það var ein af ástæðum þess að ég treysti mér ekki til að standa að þeim breytingum á þungaskattsinnheimtunni sem þá voru ákveðnar né síðari tilraunum til að lappa upp á það móverk hér á þingi.

Ég sé mjög eftir því að menn skyldu gefast upp við að útfæra olíugjald, jafnvel einhverja blandaða leið sem hefði að hluta til falið í sér olíugjald, einfaldlega vegna þess að því eru samfara miklir kostir. Það er engin spurning að í umhverfislegu tilliti er æskilegt að hafa gjaldtökuna á eldsneytinu og hvetja þar með til orkusparnaðar. Ég held að það hafi líka í skattalegu tilliti fleiri kosti en galla, þó að þeir séu vissulega fyrir hendi hvað það varðar að skattleggja eingöngu olíuna. Á það er bent að akstursleiðirnar séu mismunandi að þessu leyti, sumar leiðir krefjist meiri orkunotkunar en aðrar o.s.frv. En auðvitað er það alltaf þannig að allar slíkar leiðir hafa í sér fólgna einhverja ágalla. Ég fagna því þar af leiðandi, þó að yfirlýsingar sem komu hér frá hæstv. fjmrh. væru nú óskaplega varfærnislegar um að það mál sé í sjálfu sér ekki úr sögunni, þ.e. að ráðuneytið eða hæstv. ráðherra hafi fullan hug á að halda því vakandi, þó að ég skilji það út af fyrir sig sömuleiðis að menn vilji ekki gefa of mikið undir fótinn með að það mál fari af stað á nýjan leik því að auðvitað verður að vera einhver pínulítil kjölfesta í þessu. Það er ekki hægt að vera hringlandi með þetta endalaust. Út af fyrir sig má segja að jafnvel þó maður hafi hug á því að olíugjaldsfyrirkomulagið verði skoðað þá má ekki bara fara út í það af tómu alvöruleysi. Það verður að gera einhverja alvöru tilraun til þess að gera áhlaup á það á nýjan leik.

Herra forseti. Ég held að það sé mikilvægt í þessu sambandi að fylgjast með þróuninni í þessum efnum í nágrannalöndunum. Mjög misvísandi og skrýtnar fréttir komu af því t.d. að búið væri að hætta með alla mælanotkun og að við værum ein eftir í heiminum með ökumæla. Svo reyndist það ekki alveg rétt og nýju ökuritarnir eru sums staðar nýttir í þessu sambandi. Lengi var verið að segja sögur af því að alveg handan við hornið væru nýjar tæknilegar lausnir hvað varðaði litun olíunnar í dælu sem hefði í för með sér þá kosti að ekki þyrfti að burðast með margfalt dreifikerfi o.s.frv. En svo reyndist það nú láta á sér standa og fleira í þeim dúr hefur haft áhrif á þetta. En eftir sem áður er ástæða til þess að fylgjast með því hvernig þessu er hagað annars staðar og hvernig tækninni fleygir fram í þessu efni.

Herra forseti. Ég vil í öðru lagi leyfa mér að gagnrýna aðeins hvernig málið er fram sett. Það fer pínulítið í taugarnar á mér þegar menn vinna ekki almennilega heimavinnuna sína. Ég vil leyfa mér að segja að hið háa ráðuneyti geri það ekki nógu vel. Hér birtist í 2. gr. frv. tafla sem sýnir þá gjaldskrá sem nú á að taka gildi með þessum lögum. En þegar kemur svo að umfjöllun um 2. gr. eða yfirferð um málið í greinargerð þá er enginn samanburður við núgildandi gjaldskrá. Það eru ekki einu sinni nefndar prósentuhækkanir sem dæmi um einstaka flokka heldur er sagt --- og maður ræður það af lestrinum svona þegar maður er búinn að rýna í þetta --- að þetta á að skila ríkissjóði óbreyttum tekjum. Það kemur svo sem ekki óskaplega á óvart. En að öðru leyti er málið ekkert útskýrt nánar. Í umsögn um 2. gr. segir, með leyfi forseta:

,,Lagt er til að breyting verði gerð á kílómetragjaldi hvers þyngdarflokks ökutækja þannig að ekki komi til tekjurýrnunar og að gjaldið skili þeim tekjum sem fjárlög gera ráð fyrir.``

Með öðrum orðum, það verða gerðar einhverjar þær breytingar á gjaldskrárflokkunum sem þýða að menn fá þær tekjur, bæta sér upp þær tekjur sem niðurfelling 100 þúsund kallsins hefur í för með sér og þegar upp er staðið heldur Vegasjóður sínu. Hann fær sína tvo milljarða rúma. En enginn samanburður er gerður á gildandi gjaldskrá og þeirri sem á að taka upp samkvæmt frv.

Ég tel að þegar svona mál er lagt fram eigi að liggja fyrir í fylgiskjali tafla sem sýni þennan samanburð þannig að hægt sé að átta sig strax á því hvað þessar breytingar þýði fyrir hvern einstakan flokk.

Herra forseti. Staðreyndin er einnig sú að sjálfur skalinn eða sjálfur stiginn skiptir þarna líka miklu máli, þ.e. hvernig hann er upphugsaður og hvaða vísindi liggja á bak við álagningu gjaldsins á hvern þyngdarflokk ökutækis. Ég veit ekki hvort Samkeppnisstofnun og aðrir ætli almennt að gerast svo heilagir að það verði að vera sama krónutala eða sömu aurar á hvert kíló járns sem er í ökutækinu, eða hvernig hugsa menn þetta? Hversu heilagir og kaþólskir ætla menn að verða í þessum efnum?

Ein leið sem þarna getur skipt máli er útfærsla gjaldskrárstigans, þ.e. hvernig hún er úr garði gerð. En í öllu falli væri æskilegt að til samanburðar væru betri eða gleggri upplýsingar strax þegar málið er fram lagt.

Herra forseti. Meginrökin sem hæstv. fjmrh. færði fram fyrir því að fella niður þann valkvæða möguleika að menn gætu ákveðið að greiða miðað við 95 þús. km akstur og að í raun væri fast gjald miðað við upphæð sem akstur upp að 95 þús. km skilaði væri í boði, eru samkeppnisrökin, þ.e. að það sé allt í þágu hinnar frjálsu samkeppni að fletja þetta út á þennan hátt.

Hv. þm. Pétur Blöndal talaði um að það ætti að hætta félagslegri hjálp sem hefði verið fólgin í þessu kerfi. Ég verð nú að segja alveg eins og er að ég held að það komi ýmsum spánskt fyrir sjónir sem hafa búið við hæsta vöruverðið, verstu vegina og lengstu aðdrættina hvað varðar neysluvörur sínar og gjarnan framleiðsluvörur á markað einnig, að þeir hafi notið sérstakrar félagslegrar hjálpar, sérstakrar ölmusu af hálfu hinna göfugu skattyfirvalda á undanförnum árum. Ætli það sé alveg sérstök félagsleg hjálp fólgin í því t.d. að þurfa að flytja allar neysluvörur inn í Norður-Þingeyjarsýslu og síðan framleiðsluvörur svæðisins að stórum hluta til aftur út úr sýslunni eftir nokkur hundruð kílómetra malarvegum sem taka m.a á sig þungatakmarkanir margar vikur á ári hverju og borga samt fullan þungaskatt af vegunum eins og þeir eru úr garði gerðir þar, eða til Vestfjarða og svo má dæmi taka? Ég held að menn ættu aðeins að gá að sér áður en þeir koma með svona fullyrðingar og átta sig á því í hvernig landi við lifum.

Ég held að það megi þvert á móti færa rök fyrir hinu gagnstæða, að í raun hafi skattlagningin á þessum lengstu leiðum verið óhófleg, m.a. í ljósi ástands veganna og m.a. í ljósi þess hvernig flutningar hafa þróast í landinu, þ.e. að sjósamgöngur eða strandflutningar á sjó hafa að mestu leyti lagst af og flutningarnir færst upp á land og yfir á vegakerfi sem er á engan hátt í stakk búið til þess að taka við þeim, ekki á nokkurn hátt. Samt hafa menn mátt borga af þessu fullan þungaskatt eða þann þungaskatt sem menn hafa gert að undanförnu.

Þetta er svipað og þegar menn eru látnir borga fullt afnotagjald af sjónvarpi þó að það sé eins og rýna í stórhríð að reyna að horfa í sjónvarpstækin í sumum byggðarlögum landsins. Þannig eru nú móttökuskilyrðin. En það hefur ekki komið í veg fyrir það að menn rukki inn fullt áskriftargjald.

Staðreyndin er auðvitað sú, herra forseti, að menn eru í mjög miklum vanda staddir og það held ég að hæstv. fjmrh. verði að horfast í augu við og viðurkenna eins og við öll hin. Það eru vissulega ákveðin sjónarmið og rök fram færð af hálfu þeirra sem beitt fyrir sig samkeppnislögum og kært og haft sitt fram í þessum efnum. Það verður að viðurkennast að auðvitað eru þau sjónarmið gild og það verður að skoða þau þó að ég telji reyndar að menn séu þar orðnir býsna kaþólskir. Spurningin er hvort menn ættu þá ekki líka að líta á fleiri þætti sem varða þetta samkeppnisumhverfi. Er t.d. þungaskatturinn stærra mál í því sambandi en sú hringamyndun sem hefur verið að eiga sér stað í þessu flutningakerfi? Þyrfti ekki að líta aðeins á það og samkeppnisstöðu aðila í því samhengi, ekki bara hvað varðar skattlagninguna? En segjum að þarna séu ákveðin sjónarmið sem ekki þýði að horfa alveg fram hjá. Hinu verður ekki á móti mælt að það er auðvitað gífurleg íþynging fólgin í því að falla alveg frá þeim afsláttum sem voru innbyggðir í kerfið alveg frá upptöku mælakerfisins á sjöunda áratugnum. Þegar mælakerfið var tekið upp var algjört samkomulag um að ekki kæmi annað til greina en að taka mið af sérstöðu landflutninganna og í raun var í upphafi hugmyndin sú að hafa það algjörlega sérstakan skattflokk. Svo hurfu menn frá því og settu eitt kerfi á alla vöruflutningabíla hvort sem það voru efnisflutningar eða hefðbundnir vöruflutningar, almennar vörur á landi.

En þá var innbyggður í kerfið mjög brattur stigi, ef svo má að orði komast, hvað varðaði stighækkandi afslætti með vaxandi akstri. Gjaldskráin var sem sagt þannig að eftir árs\-akstri vöruflutningabifreiðanna fór skalinn stiglækkandi frá 10--20 og upp í 50% miðað við 25, 35 og 45 þús. km akstur á ári. Þá sjá menn hversu mikill þessi afsláttur var í kerfinu eins og það var sett í gang í byrjun. Rökin voru auðvitað þau að þarna yrði að líta til allra þeirra þátta sem máli skiptu, ekki væri aðeins unnt að miða gjaldskrána við raunþyngd flutningabifreiðanna, það yrði að líta til ástands veganna, til flutningaleiðanna, á lengstu leiðunum þyrfti að nota þyngstu og kraftmestu tækin og oftast væri lítill flutningur til baka þannig að önnur leiðin væri illa nýtt o.s.frv.

Sömu sjónarmið gilda að miklu leyti enn þann dag í dag. Eitt af því sem gerist með þessum breytingum, nái þær fram að ganga, og gerðist líka að hluta til með breytingunum 1998 var að mikill tilflutningur á skattbyrði varð milli hópa innan kerfisins. Þá ég ekki bara við stóra bíla og litla og þá sem aka langt eða skammt. Það var tilflutningur á skattbyrði frá efnisflutningaaðilum yfir á landflutninga og langflutningaleiðirnar. Landvari áætlar að sá tilflutningur hafi numið 300 millj. kr. Einhver borgar það að lokum. Það gufar ekki upp. Það þýðir ekkert að reiða fram einhverja skýrslur sem ég hef fulla fyrirvara á, sem sýni að í almennu vöruverði á landsbyggðinni þá vegi þetta ekki mjög þungt.

Þar er að mjög mörgu að hyggja, í fyrsta lagi að þetta kemur mjög misjafnt út eftir byggðarlögum og þetta kemur misjafnt út eftir vöruflokkum. Það er t.d. ljóst að þungavaran og stykkjavaran tekur á sig mikla hækkun vegna slíkra gjaldskrárbreytinga. Það er alveg óhjákvæmilegt. Það væri hægt að nefna dæmi. Ég gæti nefnt hið fræga dæmi um skítadreifarann sem átti að kosta 40 þús. kr. að flytja frá Húsavík norður á Þórshöfn. Skatturinn hefur þarna mikil áhrif. Það verður ekkert fram hjá því horft.

Landvari áætlar að þarna gæti orðið um 200 millj. kr. flutningur á skattbyrði í viðbót ef þessar breytingar nú ná fram að ganga. Þá er þetta orðinn um hálfur milljarður kr. sem þarna hefur verið færður til og þess mun sjá stað. Það þýðir ekki að láta sem það komi hvergi við. Það er alveg augljóst, herra forseti.

Hvað er þá hægt að gera? Er engin önnur leið en sú að beygja sig í duftið fyrir þessum samkeppnisrökum og hverfa frá öllum möguleikum sem fela í sér einhverja valmöguleika, einhverja ívilnun á akstri þeirra sem lengstu leiðirnar aka? Er það svo? Er ekki hægt að beita neins konar gjaldskrá, fastagjöldum eða neinum slíkum hlutum? Er það bannað? Er það orðið þannig?

Er það þá t.d. þannig að jafnvel þó að viðskiptaleg rök eða samgönguleg rök væru fyrir því að hafa gjaldtökuna mismunandi þá sé það samt ekki hægt? Má t.d. ekki veita afslætti af þungaskatti vegna lélegra vega? Er það svo? Getur Samkeppnisstofnun bannað Alþingi að veita afslætti af þungaskatti á malarvegum? Það tel ég fráleitt. Ég kaupi ekki slíkt og ég tel að slíkt ætti þá að fara alla leið fyrir dómstóla, alveg á endastöð.

[11:30]

Ég fullyrði að ef Alþingi ákveður að hafa sérstaka afslætti inni í kerfinu vegna þess að hluti af flutningaleiðunum er á meira og minna ónýtum vegum þá hljóti það að vera hægt.

Er algjörlega útilokað og bannað að veita nokkuð sem væri í viðskiptalegu samhengi einhvers konar ígildi magnafsláttar? Er það svo? Má ríkið þá ekki veita stærstu kúnnum sínum neinn afslátt, þ.e. þeim sem aka lengst og borga mest?

Hvar endar þessi röksemdafærsla? Endar hún ekki þannig að gjaldskráin verður þá að alfarið að taka mið af því hvernig menn slíta vegunum? Og hvernig halda menn að gjaldskráin líti þá út? Auðvitað verðum við að viðurkenna að það er langt í frá að þau gjaldstig sem hér eru upp sett séu í fullkomnu samræmi við það sem rannsóknir sýna að sé álagið á vegina, milli t.d. smábíla og stórra og þungra flutningatækja. Það liggur alveg ljóst fyrir samanber stærðfræðiformúlurnar sem hæstv. ráðherra fór hér með.

Herra forseti. Ég hallast að því að það séu fyrst og fremst tvær leiðir mögulegar ef menn verða að beygja sig alfarið í duftið fyrir þessum samkeppnisrökum sem ég geri ekki og ég vísa til þess sem ég áður sagði. Sú fyrri er að taka upp sérstakan gjaldflokk fyrir landflutninga, vöruflutninga á landi, aðskilja skattlagninguna á efnisflutninga og almennar vörubifreiðar og síðan aftur landflutningaaðila. Það verður að gera með einhverri skráningu þeirra. Þeir verða að uppfylla viss skilyrði og geta að sjálfsögðu þurft að afsala sér ákveðnum réttindum á móti þannig að slík tæki gætu t.d. alfarið og eingöngu verið notuð til langflutninga á vörum á landi sem menn skrá sig til að gera og þá sé komið yfir í annan og sérstakan gjaldskrárflokk. Það er ein leið sem ég tel að verði að skoða í þessum efnum.

Hin leiðin er ósköp einfaldlega sú að taka þessu eins og hverju öðru hundsbiti þannig að þetta verði allt einn samræmdur gjaldflokkur en grípa þá til gagnráðstafana á móti. Það hlýtur Alþingi að mega gera --- það verður kannski að tilkynna það til Brussel samanber fréttirnar í morgun --- en gera það þá og segja: Vegna þess að þetta mundi að óbreyttu þýða mikla vöruverðshækkun í fjölmörgum byggðarlögum fjarlægum Reykjavík þá verður gripið til þeirra gagnráðstafana að endurgreiða eða koma á einhvern hátt inn í verðmyndunina í flutningagjöldunum og vöruverðinu sem ella mundi óumflýjanlega hækka.

Herra forseti. Menn verða að skoða einhverjar slíkar leiðir í þessum efnum. Ég trúi því ekki að óreyndu að ofan í allt það sem segja má um ástand byggðamálanna á Íslandi í dag þá ætli Alþingi að senda afskekktustu byggðarlögunum þá jólakveðju sem að óbreyttu fælist í afgreiðslu þessa frv.