Fjáröflun til vegagerðar

Föstudaginn 03. desember 1999, kl. 11:33:51 (2224)

1999-12-03 11:33:51# 125. lþ. 35.10 fundur 223. mál: #A fjáröflun til vegagerðar# (afsláttur af þungaskatti) frv. 31/2000, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 125. lþ.

[11:33]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kom hér með sjónarmið sem eiga rétt á sér ein sér. En ef maður horfir til annarra sjónarmiða þá hafa þau ekki rétt á sér. Hann segir að fyrirtæki í Þingeyjarsýslunni þurfi að flytja afurðir sínar um langan veg til Reykjavíkur til að flytja þær þaðan til útlanda og öfugt þegar þeir flytja inn. Hann telur að þetta kosti fyrirtækin mjög mikið, það sé óréttlátt og eigi að reyna að laga.

Vandinn liggur í því að öllu atvinnulífinu er miðstýrt frá Reykjavík. Það er bara vandi sem við stöndum frammi fyrir. Það er spurningin um staðsetningu fyrirtækja, þ.e. staðarval þeirra. Það sem mér heyrist þingmaðurinn í raun vilja gera er að stytta vegi með lögum. Bara hreinlega að stytta vegi með lögum. Gera einhverjar ráðstafanir til að láta það sem þjóðhagslega er óskynsamlegt verða skynsamlegt fyrir fyrirtækin. Ég held að það sé bara alls ekki hægt. Það borgar sig ekki þjóðhagslega. Við höfum reyndar gert það í mjög miklum mæli. Við erum með alls konar jöfnunargjöld, flutningsjöfnun fyrir sement og olíu og mjólk o.fl., sem skekkir alla hagkvæmni í rekstri. Það eru stofnsett mjólkurbú austur í Skaftárhreppi vegna þess að ekki skiptir máli fyrir flutninga út af flutningsjöfnuninni hvar mjólkin er framleidd. En þjóðhagslega er það ekki skynsamlegt.

Við megum ekki ganga svo langt í þessum réttlætissjónarmiðum að gera hluti sem eru þjóðhagslega óskynsamlegir. Síðan getum við rætt um hvort gott sé að Reykjavík sé miðstöð alls efnahagslífs. En það er önnur spurning.