Fjáröflun til vegagerðar

Föstudaginn 03. desember 1999, kl. 11:52:57 (2229)

1999-12-03 11:52:57# 125. lþ. 35.10 fundur 223. mál: #A fjáröflun til vegagerðar# (afsláttur af þungaskatti) frv. 31/2000, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 125. lþ.

[11:52]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Það er aðeins eitt atriði sem ég vil nefna. Ég tel ekki að það kalli á viðbrögð af hálfu þingmannsins en hann kvartaði undan einu atriði sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hafði sömuleiðis kvartað undan, og ég tel að það sé réttmæt ábending eins og hún var fram sett, þ.e. að frv. að því er varðar framsetningu á kílómetragjaldstöflunni sé ekki nógu skýrt. Þetta hefði maður átt að sjá sjálfur. Það hefði verið eðlilegt að hafa þarna samanburðartöflu til þess að auðvelda mönnum að átta sig á þessu. Reyndar eru svona breytingafrumvörp oft mjög snúin vegna þess að lagatextinn segir kannski: 3. mgr. b-liðar fellur brott. Það er því ekki óalgengt að frumvörp líti þannig út og þá leita menn í skýringarnar. En þarna hefði mátt gera betur að því er varðar þessa töflu. Ég tek undir það og tel að þetta sé réttmæt gagnrýni og mun beita mér fyrir betrumbót á því sviði næst, sem vonandi verður ekki í sambandi við þennan skatt.

Ég vek athygli á því sem ég sagði áðan að til eru margs konar upplýsingar um þetta, töflur og annað sem við munum að sjálfsögðu leggja fyrir efh.- og viðskn. í þessu starfi.