Fjáröflun til vegagerðar

Föstudaginn 03. desember 1999, kl. 11:54:20 (2230)

1999-12-03 11:54:20# 125. lþ. 35.10 fundur 223. mál: #A fjáröflun til vegagerðar# (afsláttur af þungaskatti) frv. 31/2000, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 125. lþ.

[11:54]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það var spurning hjá hv. þm. um það hvort ég vildi frekar borða skemmt kjöt eða nýtt kjöt, þ.e. keyra á ónýtum vegum eða góðum vegum. Ég vil að sjálfsögðu kaupa nýtt kjöt og þess vegna bý ég í Reykjavík. En það er ýmislegt sem hefur áhrif á það hvar fólk velur sér búsetu. Ég vil nefna nokkur dæmi, t.d. hávaðamengun, glæpamengun og umferðarstreitu. Ég nefni vandamál með bílastæði. Ég nefni dýrt húsnæði. Svo eru aftur kostir eins og leikhús, kaffihús og annað slíkt. Einnig koma til góðir vegir eða slæmir vegir. Þegar fólk vegur þetta og metur allt saman þá ákveður það hvar það býr.

Það er svo merkilegt, herra forseti, að miklu fleiri íbúar Reykjavíkur mundu vilja búa úti á landi heldur en íbúar landsbyggðarinnar sem mundu vilja búa í Reykjavík.