Fjáröflun til vegagerðar

Föstudaginn 03. desember 1999, kl. 12:11:16 (2236)

1999-12-03 12:11:16# 125. lþ. 35.10 fundur 223. mál: #A fjáröflun til vegagerðar# (afsláttur af þungaskatti) frv. 31/2000, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 125. lþ.

[12:11]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég tel það miður fyrir umfjöllun og framgang þessa máls í þinginu að ekki hafi verið haft samráð við hagsmunaaðila eða leitað umsagna þeirra um þá útfærslu sem hæstv. ráðherra komst endanlega að áður en málið var lagt fyrir þingið. Ég held að það sé eðlilegt og rétt að viðhafa þau vinnubrögð að hagsmunaaðilar og þeir sem eiga að búa við þessa löggjöf eigi þess kost að segja álit á málinu áður en það kemur fyrir þingið. Vissulega er eðlilegt að þingið sendi málið til umsagnar. En það á auðvitað að vera óháð því hvort ráðherrann hafi haft samráð við hagsmunaaðila eða ekki. Ég tel það bara rétt og eðlilegt.

Ráðherrann svaraði því ekki hvort haft hefði verið samráð við Samkeppnisstofnun sem ítrekað hefur gert athugasemdir við útfærsluna á þungaskattskerfinu og hvort ráðherrann geti staðfest hér að þingið muni þá ekki eiga von á því að fá athugasemdir frá Samkeppnisstofnun eða samkeppnisráði verði þessi leið valin og hún gerð að lögum.

Varðandi afgreiðslu málsins þá er gott að fá að vita við 1. umr. að ráðherrann leggur ekki sérstaka áherslu á að fá málið afgreitt fyrir jól. Ég held að það sé skynsamlegra allra hluta vegna því efh.- og viðskn. er með mörg mál til umfjöllunar, að við gefum okkur aðeins rýmri tíma en fram að jólum til að fjalla um málið. Hér er svo stórt mál á ferðinni og það er hreinlega orðið þinginu til skammar hvernig það hefur alltaf verið afgreitt þannig að það þarf síendurtekið að koma til kasta þingsins aftur. Ég held að við ættum að gefa okkur þann tíma sem þarf til þess að skoða málið og afgreiða það í þeim búningi að það geti staðið til einhverrar frambúðar.