Fjáröflun til vegagerðar

Föstudaginn 03. desember 1999, kl. 12:20:50 (2239)

1999-12-03 12:20:50# 125. lþ. 35.10 fundur 223. mál: #A fjáröflun til vegagerðar# (afsláttur af þungaskatti) frv. 31/2000, SighB
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 125. lþ.

[12:20]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Vandræðin með framkvæmd þungaskattsins sem Alþingi hefur tekið til umfjöllunar hvað eftir annað eiga rætur sínar að rekja til fyrri og vanhugsaðra ákvarðana Alþingis. Alþingismenn sáu þá ekki fram á hvaða afleiðingar ákvarðanir þeirra mundu hafa. Á sínum tíma var tekin ákvörðun um að notendur dísilbíla, þ.e. almenningur og þeir sem keyra sendi- og vöruflutningabíla um tiltölulega skammar vegalengdir, skyldu greiða niður kostnaðinn við þungaflutninga og landflutninga um langa vegu. Allur almenningur sem á dísilbíla og keyrir á þeim, sendibílstjórar og aðrir slíkir, greiða niður kostnað landflutningabíla sem eiga um langan veg að fara og flytja þungt æki. Þessi ákvörðun varð þess valdandi á sínum tíma að sú flutningastefna sem búið var að móta fyrir landsbyggðina var brotin niður.

Stefnan sem mótuð hafði verið fyrir landsbyggðina var á þann veg að öruggast og hagkvæmast væri að stunda tíða sjóflutninga frá Reykjavík í nokkrar aðaluppskipunarhafnir á landsbyggðinni. Þar tækju síðan flutningabifreiðar við fraktinni og flyttu heim til hvers og eins, vegakerfið skyldi byggja upp í samræmi við það, þ.e. leggja mesta áherslu á uppbyggingu innanhéraðsvega þannig að flutningarnir gætu gengið greiðlega fyrir sig. Niðurgreiðslur sem ákveðnar voru til langflutningabílanna og þeirra fyrirtækja gerðu það hins vegar að verkum að þeim tókst að brjóta niður þessa skynsamlegu stefnu. Landflutningar fóru í samkeppni við sjóflutninga á þeirri forsendu að geta boðið niðurgreidd kjör og brutu þannig sjóflutningana á bak aftur. Mér er sem ég sæi álit Samkeppnisstofnunar ef hún hefði verið starfandi við þær aðstæður.

Niðurstaðan er sú að sjóflutningar eru ekki lengur stundaðir og ekki er hægt að gera þær skynsamlegu breytingar á þungaskattsinnheimtunni sem Alþingi hefur talið nauðsynlegar, þ.e. breyta frá kerfi þungaskattsinnheimtu yfir í kerfi olíugjalds. Þá kemur fyrst í ljós hver hinn raunverulegi kostnaður við landflutningana er og verður auðvitað ljóst, eins og hér hefur komið fram, að landflutningafyrirtækin standa ekki undir þeim kostnaði. Fólkið úti á landsbyggðinni yrði að borga miklu hærri flutningataxta en eru í dag. Þetta er afleiðing af þeirri ákvörðun sem Alþingi tók á sínum tíma um framkvæmd þungaskattsinnheimtunnar. Alþingi og hæstv. ráðherra eru nú í vandræðum út af þeirri gömlu ákvörðun. Í núverandi kerfi, hvorki innan kerfis þungaskatts né olíugjalds, er hægt að taka skynsamlega ákvörðun um breytingar á þessu óréttláta kerfi. Landflutningarnir hvíla bókstaflega á því að aðrir eigendur dísilbíla niðurgreiði fyrir þá flutningskostnaðinn.

Ég vil þó skjóta fram spurningu til hæstv. ráðherra um hvort hann sé ekki reiðubúinn til þess að huga að einni aðferð sem er skynsamleg og mundi leysa þetta vandamál. Ég vitna til þess að fyrir síðustu kosningar hafði Samfylkingin á oddinum hugmyndir um að taka upp mengunargjöld í staðinn fyrir hefðbundnari skattheimtu.

Aðferðin er að sjálfsögðu sú að innheimta olíugjaldið, þ.e. skattleggja dísilolíu í staðinn fyrir að innheimta þungaskatt, með því að leggja á hvern seldan dísillítra ákveðna fjárhæð í formi mengunarskatts. Það gengi yfir alla notendur dísilolíu, ekki bara þá notendur dísilolíu sem brenna henni á landi heldur líka þá sem brenna henni á sjó. Auðvitað stafar jafnmikil mengun af dísilolíu sem brennt er í landflutningum, dísilolíu sem brennt er í sjóflutningum og dísilolíu sem er brennt á fiskiskipum.

Þungaskattsinnheimtan er að verða óleysanlegt vandamál vegna þess að Samkeppnisstofnun mun örugglega gera athugasemdir við nærfellt hvaða aðferð sem felst í að einn notandi dísilolíu greiði niður kostnað fyrir annan til þess að skapa óeðlilega verðmyndun. Í stað kerfis sem aldrei gengur almennilega upp þarf að taka upp kerfi mengunargjalds sem ná mundi til allra notenda dísilolíu. Af því að það nær til allra notenda dísilolíu þá væri hér um að ræða nokkurra aura gjald á hvern dísillítra. Það mundi ekki með nokkru móti há þeim notendum dísilolíu sem nú þurfa að flytja vörur um langan veg. Auðvitað er alveg ljóst ef miðað er við að ríkissjóður tapi ekki fé frá núverandi tekjum af þungaskatti þá yrði gjald á hvern lítra af seldri dísilolíu sem næði til allra notenda slíkrar olíu mjög lágt, örfáir aurar eða eftir því sem ég man rétt innan við 20 aurar á hvern dísilolíulítra. Er það ekki sanngjarnari skattheimta og eðlilegri og meira jafnræðis og jafnréttis gætt en með gjöldum sem nú eru lögð á notendur dísilolíu í landflutningum með þungaskattsinnheimtunni? Ef hv. efh.- og viðskn. fær nægan tíma til að skoða málið þá hefði ég áhuga á að vita hvort hæstv. fjmrh. mundi ekki vilja beita sér fyrir að þessi framkvæmd yrði athuguð ásamt öðrum hugmyndum sem upp kynnu að koma við athugun nefndarinnar á málinu.