Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Föstudaginn 03. desember 1999, kl. 12:32:26 (2242)

1999-12-03 12:32:26# 125. lþ. 35.12 fundur 235. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala á 15% hlut) frv. 93/1999, viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 125. lþ.

[12:32]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 50/1997, um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands, sem er 235. mál þingsins á þskj. 287.

Með frv. þessu er lagt til að Alþingi heimili viðskrh. að selja af hlutafé ríkissjóðs í Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. 15% hlut í hvorum banka fyrir sig.

Ríkið á nú um 85% hlutafjár í Landsbanka og Búnaðarbanka en nýtt hlutafé í bönkunum að verðmæti um 15% af heildarhlutafé hvors banka var boðið almenningi til kaups síðari hluta ársins 1998. Verði 15% hlutafjár ríkissjóðs í bönkunum selt mun ríkið eiga um 72% í bönkunum eftir söluna. Verðmæti 15% hlutafjár ríkisins er 5,6 milljarðar kr. miðað við núverandi gengi hlutabréfa bankanna.

Verði frv. að lögum á haustþingi er stefnt að því að nýta heimildina til sölu hlutafjár strax fyrir áramót. Stefnt er að því að selja meiri hluta þess hlutafjár sem í boði er til almennings en minni hluta í tilboðssölu. Tekið verður mið af reynslu fyrri útboða og lögð áhersla á dreifða eignaraðild. Viðskiptaráðherra tekur ákvörðun um útfærslu sölunnar að fengnum tillögum framkvæmdanefndar um einkavæðingu.

Frv. er lagt fram í því skyni að tryggja að a.m.k. 25% af heildarhlutafé Landsbanka og Búnaðarbanka verði í eigu annarra en ríkisins. Í 9. gr. reglna Verðbréfaþings Íslands um skráningu verðbréfa á þinginu segir að dreifing eignarhalds hlutabréfaflokks sem sótt er um skráningu á skuli vera þannig að a.m.k. 25% hlutabréfanna og atkvæðisréttar sé í eigu almennra fjárfesta. Þegar stjórn Verðbréfaþings Íslands samþykkti að skrá hlutabréf Landsbanka og Búnaðarbanka á aðallista þingsins var veitt undanþága frá þessu skilyrði um dreifða eign. Undanþágan var veitt með hliðsjón af því að viðskiptaráðherra hafði lýst því yfir að það væri liður í stefnumörkun ríkisstjórnarinnar um sölu hlutafjár í bönkunum að dreifing hlutafjár í samræmi við reglur Verðbréfaþingsins væri tryggð eigi síðar en 1. júní árið 2000.

Hagstætt árferði á hlutabréfamarkaði gerir það að verkum að ástæða er til að tryggja framangreinda dreifingu hlutafjárins nú þegar. Með dreifðri sölu til almennings í hlutafélagabönkunum tveimur er hvatt til aukins sparnaðar heimilanna, hlutabréfamarkaður efldur og verðmyndun hlutabréfa í bönkunum treyst. Almenningi gefst jafnframt kostur á að nýta sér kaup hlutabréfa í bönkunum til skattafsláttar í samræmi við reglur ríkisskattstjóra. Markmiðin með sölunni eru í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 28. maí 1999.

Samkvæmt lögum nr. 50/1997, um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands, getur viðskiptaráðherra heimilað útboð á nýju hlutafé í bönkunum. Samanlagður eignarhlutur annarra aðila en ríkissjóðs má þó ekki vera hærri en 35% af heildarfjárhæð hlutafjár í hvorum bankanum um sig. Þessi heimild hefur verið nýtt að hluta. Hægt væri að uppfylla skilyrði Verðbréfaþingsins um dreifingu hlutafjár með því að heimila útboð á nýju hlutafé. Slík ráðstöfun er hins vegar talin óæskileg í ljósi mikils vaxtar í þjóðarbúskapnum að undanförnu. Því er í frv. lagt til að viðskiptaráðherra fái heimild til sölu hlutafjár.

Ríkisstjórnin hefur haft þá stefnu að jafna aðstæður á milli ríkis og einkaaðila og draga úr hlutverki ríkisins í starfsemi sem einkaaðilar geta stundað og þar sem samkeppni þrífst. Þetta á ekki hvað síst við um fjármagnsmarkaðinn. Vel heppnuð breyting á rekstrarformi ríkisviðskiptabanka og sameining fjárfestingarlánasjóða í einn öflugan fjárfestingarbanka og einn nýsköpunarsjóð gekk í gildi 1. janúar 1998. Þá urðu Landsbankinn og Búnaðarbankinn að hlutafélögum og Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf. og Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins stofnaðir úr fjórum fjárfestingarlánasjóðum í eigu ríkisins. Með þessu fyrsta skrefi var almenn fjármálastarfsemi ríkisins sett í sama form og fjármálafyrirtæki á samkeppnismarkaði, en hlutverk ríkisins í nýsköpun staðfest.

Árangurinn af þessum aðgerðum hefur þegar komið í ljós. Rekstur Landsbankans og Búnaðarbankans hefur gengið vel og er hagnaður þeirra meiri en áður í sögu bankanna þrátt fyrir að vaxtamunur hafi lækkað verulega. Samanlagður hagnaður bankanna var nærri 1.600 millj. kr. á árinu 1998 og um 1.300 millj. kr. á fyrri hluta þessa árs. Áhyggjur sem m.a. komu fram í grg. með frv. því sem varð að lögum nr. 50/1997 um að bankarnir þyrftu langan tíma til aðlögunar áður en hægt væri að hefja sölu hlutafjár ríkissjóðs hafa ekki átt við rök að styðjast. Aðlögunarhæfni bankanna hefur verið góð, svo sem meðal annars sést á hagnaði þeirra og lægri lántökukostnaði á nýjum lánum þrátt fyrir afnám ríkisábyrgðar.

Herra forseti. Rekstur bankanna hefur gengið vel og staða þeirra er traust. Í bönkunum tveimur eru um 36 þús. hluthafar sem notið hafa góðs af miklum hagnaði þeirra og hagstæðari gengisþróun. Frv. þetta miðar að því að styrkja bankana enn frekar og fá almenning til að taka þátt í uppbyggingu þeirra. Ríkið mun samt sem áður enn eiga vel yfir 2/3 hlutafjár í bönkunum.

Markmið ríkisstjórnarinnar er að eignarhald í Landsbanka og Búnaðarbanka verði dreift líkt og eignarhaldið í bönkum í einkaeigu sem skráðir eru á markaði, Fjárfestingarbanka atvinnulífsins og Íslandsbanka. Þessi sala stuðlar einmitt að því markmiði.

Herra forseti. Ég legg til að málinu verði vísað til efh.- og viðskn. að lokinni þessari umræðu.