Fjárhagsstaða sveitarfélaga

Föstudaginn 03. desember 1999, kl. 13:31:04 (2248)

1999-12-03 13:31:04# 125. lþ. 35.94 fundur 179#B fjárhagsstaða sveitarfélaga# (umræður utan dagskrár), Flm. SvanJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 125. lþ.

[13:31]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Hún hefur verið sérkennileg umræðan um fjárhagsstöðu sveitarfélaganna nú á haustdögum, einkum vegna himinhrópandi skilningsleysis ríkisstjórnarinnar, en lengst hefur þó hæstv. forsrh. gengið og það langt að sveitarstjórnarmenn hafa fundið sig knúna til að álykta sérstaklega um ummæli hans.

Staðan er þessi: Sveitarfélögin hafa á undanförnum árum skuldsett sig vegna lagaskyldu um einsetningu grunnskóla og lögbundin verkefni hafa verið að taka til sín meira fé, einkum félagsþjónusta og umhverfismál. Á sama tíma er það sameiginlegt mat fulltrúa ríkisins og sveitarfélaganna að tekjuskerðing sveitarfélaganna vegna skattabreytinga sé rúmir 2 milljarðar á ári. Og byggðaþróunin sem ríkisstjórnin getur ekki vikið sér undan ábyrgð á, hefur mikil áhrif á stöðu sveitarfélaganna, bæði þeirra sem eru að taka við nýjum íbúum og þurfa að fjárfesta þess vegna og ekki síður hinna þar sem íbúum og jafnvel fyrirtækjum er að fækka og tekjurnar að minnka að sama skapi. Sveitarfélög hafa verið að sameinast til að geta betur tekist á við verkefnin og sums staðar er verið að reyna að bregðast við fólksfækkun og bresti í byggðinni, því hvert er svigrúm fámennra sveitarfélaga? Það er ekki fyrir hendi nema þau segi sig frá sínum lögboðnu verkefnum. Það er hinn grimmi veruleiki víða um landið.

Svo koma sendingarnar um hina slælegu fjármálastjórn frá þeim sem ríða á öldufaldi aukinna veltuskatta og viðskiptahalla. Og nú þegar fasteignamatið hækkar, m.a. vegna byggðaþróunarinnar, þá tekur ríkið til sín álíka miklar tekjur út á það og sveitarfélögin eiga kost á. En sá er þó vandi sveitarfélaganna að ríkið hefur með óábyrgum hætti byggt upp þær væntingar hjá fólki víða um land að fasteignaskattar þess hækki ekki heldur verði samræmdir raunverulegu mati eignanna. Þannig grefur ríkisstjórnin undan möguleikum sveitarfélaganna á að nýta tekjustofna sína. Eða á hún svör handa þessu fólki, svör sem ekki skerða þá tekjur sveitarfélaganna?

Herra forseti. Pólitísk heift forsrh. gagnvart Reykjavíkurlistanum virðist byrgja ríkisstjórninni svo gjörsamlega sýn að hún aðhefst hvorki né gengst við ábyrgð sinni. Þannig talar hæstv. forsrh. í viðtali við Viðskiptablaðið um sveitarfélögin sem langstærsta efnahagsvandamálið í dag og saknar þess hve stjórnendur stærri sveitarfélaga, ,,einkum þess stærsta``, segir hann, séu skyni skroppnir í þessum efnum. En á sama tíma birtir tímaritið Vísbending sína árvissu einkunnagjöf um efnahagsstjórn sveitarfélaganna og þá vill svo til að höfuðborgin er í öðru sæti af 32, og er að sækja í sig veðrið, herra forseti, enda segir greinarhöfundur Vísbendingar að pólitíkin fari forsrh. stundum betur en hagfræðin.

En það er hörmulegt að þessi viðhorf sem ég hef hér verið að lýsa virðast ráða afstöðu ríkisstjórnarinnar til sveitarfélaganna. Það er ástæða til að óttst að sú neikvæða umræða sem efnt hefur verið til um stöðu þeirra sé síst til þess fallin að styrkja byggðina um landið.

Nei, það væri nær að ræða hlutverk sveitarfélaganna og möguleika á að veita fólkinu þá mikilvægu þjónustu sem þau hafa tekist á hendur, bæði vegna lagaskyldu og líka til að mæta væntingum og þörfum íbúanna. Sterk sveitarfélög með aukin verkefni og trausta tekjustofna gætu nefnilega verið öflugasta tækið til að ná jafnvægi í byggð landsins. En byggðavandinn, herra forseti, er klárlega efnahagsvandi sem ríkisstjórnin ætti að vera uppteknari af.

Það eru rýr skilaboð að vísa svörum inn í framtíðina, inn í tekjustofnanefndina. Ef ríkið greiddi strax á næsta ári þá rúmu 2 milljarða sem fulltrúar ríkis og sveitarfélaga eru sammála um að hafi hallað á sveitarfélögin þá mætti vænta þess að sveitarfélögin yrðu með hallalausan rekstur.

Vill ríkisstjórnin leysa vanda eða vill hún bara tala um vanda? Hvaða vilja er ríkisstjórnin tilbúin til að sýna? Það er tímabært, herra forseti, að þessi mál séu rædd á Alþingi. Margir alþingismenn eru eða hafa verið sveitarstjórnarmenn og skilja mætavel þann vanda sem við er að etja og það er mikilvægt að héðan komi önnur skilaboð en þau sem hæstv. forsrh. hefur verið að færa sveitarstjórnarmönnum og íbúum landsins að undanförnu.