Fjárhagsstaða sveitarfélaga

Föstudaginn 03. desember 1999, kl. 13:41:51 (2250)

1999-12-03 13:41:51# 125. lþ. 35.94 fundur 179#B fjárhagsstaða sveitarfélaga# (umræður utan dagskrár), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 125. lþ.

[13:41]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Samkvæmt tillögum til fjárlaga á ríkissjóður að skila 15 milljarða kr. rekstrarafgangi á næsta ári. En á sama tíma eru sveitarfélögin að safna skuldum. Í miklum uppgangi í efnahagslífinu er eðlilegt að ríkissjóður skili tekjuafgangi en það er ólíklegt að 15 milljarðarnir standi eftir ef tekið verður tillit til margra vanáætlaðra þátta, svo sem reksturs heilbrigðisstofnana og fjárhagsstöðu sveitarfélaganna.

Áhrif skattbreytinga á árunum 1995--1997 hafa haft veruleg áhrif á rekstrarafkomu sveitarfélaganna eins og fram kemur í þeirri greinargerð sem hæstv. félmrh. vísaði til hér áðan. Þessar skattbreytingar hafa leitt til þess að sveitarfélögin hafa orðið af útsvarstekjum og leitt til skerðingar á tekjustofnum sveitarfélaganna. Sveitarfélögin hafa tekið á sig aukin verkefni, bæði yfirtekið rekstur sem áður var í höndum ríkisins og eins ný verkefni sem koma með auknum kröfum á sviði umhverfismála og félagslegrar þjónustu.

Yfirtaka grunnskólans er með stærri rekstrarliðum sveitarfélaganna og hefur orðið þeim dýrari en framlög til málaflokksins standa undir af ástæðum sem eru vel þekktar, þ.e. launahækkunum og einsetningu skólanna. Í þeim vanda sem mörg sveitarfélögin standa frammi fyrir nú varðandi íbúaþróun og flutning fólks af landsbyggðinni er skiljanlegt að lögð sé áhersla á bætta félagslega þjónustu og fjárfestingar sem auka líkur á því að fólk búi áfram í sveitarfélaginu.

Herra forseti. Það er einfaldlega vitlaust gefið í tekjum annars vegar og verkefnum hins vegar á milli ríkis og sveitarfélaga. Það á að hvetja til aðhalds hjá ríki, sveitarfélögum og einstaklingum, en það verður að vera rétt gefið og því verður að flýta endurskoðun á tekjustofnakerfi sveitarfélaganna.