Fjárhagsstaða sveitarfélaga

Föstudaginn 03. desember 1999, kl. 13:44:08 (2251)

1999-12-03 13:44:08# 125. lþ. 35.94 fundur 179#B fjárhagsstaða sveitarfélaga# (umræður utan dagskrár), GunnB
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 125. lþ.

[13:44]

Gunnar Birgisson:

Virðulegi forseti. Ég er ánægður með að þessi umræða skyldi fara hér fram. Margir alþingismenn eru fyrrverandi og núverandi sveitarstjórnarmenn. Mér virðist sem sumir þeirra hafi gleymt uppruna sínum en einhver er nú að vakna af dvalanum þar sem mér finnst að á hinu háa Alþingi hafi ekki verið hafðir í heiðri hagsmunir sveitarfélaganna hingað til.

Ég hef sagt það hér áður í þessum stól að það þurfi að setjast niður og nefnd er í gangi sem er að ganga frá tekjustofnum sveitarfélaga og semja um þá. Það er náttúrlega mál að linni. Það er alveg rétt að þessi halli er 2 milljarðar á ári og það þarf að ganga frá málinu. Hvað menn svo gera í framtíðinni, þá er ég mjög á móti því að ríkið sé ofan í þessu og skammti sveitarfélögunum úr hnefa. Ég tel að frekar megi hugsa sér að sveitarfélögin sjálf ákveði þetta og þá stjórna menn náttúrlega eftir því og veldur hver á heldur í þeim málum.

[13:45]

Varðandi fasteignamatið sem hefur hækkað gífurlega núna, ber þess að geta að á undanförnum árum hefur fasteignamatið hækkað mjög lítið. Fasteignamat á að endurspegla verðmat eigna hverju sinni. Það gerir það hér á höfuðborgarsvæðinu en það gerir það ekki úti á landi. Það er alveg ljóst og þarf að taka á því máli sérstaklega.

Varðandi það sem hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir kom hér með um Vísbendingu og einkunnagjöf þess ágæta tímarits þá getur það verið tvíbent sem stendur þar, varðandi t.d. borgina en áhöld eru um úr hvaða vasa menn slá lánin og borga svo niður hinum megin. En ég er sammála hæstv. ráðherra Páli Péturssyni að eitt mesta verkefnið í þessu og erfiðasta eru hinir miklu búferlaflutningar sem eiga sér stað. En allt um það að svo erfitt sé að fá nýja íbúa og þá spyr ég á móti: Ætli það hafi bara nokkurn tíma borgað sig að stofna sveitarfélag á landinu yfir höfuð? Sveitarfélög eru þannig (Forseti hringir.) að til þess að þar fjölgi þá þurfa íbúar að koma þar inn. En það gerist kannski heldur hratt núna þessa dagana.