Fjárhagsstaða sveitarfélaga

Föstudaginn 03. desember 1999, kl. 13:51:23 (2254)

1999-12-03 13:51:23# 125. lþ. 35.94 fundur 179#B fjárhagsstaða sveitarfélaga# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 125. lþ.

[13:51]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Rógburður ráðherra í hæstv. ríkisstjórn um slælega fjármálastjórn sveitarfélaga er að verða nokkuð árviss atburður. Menn minnast framgöngu hæstv. félmrh. og þáv. hæstv. fjmrh. á ráðstefnu um fjármál sveitarfélaga fyrir rúmu ári síðan og núna kom hið dæmalausa viðtal við hæstv. forsrh. í Viðskiptablaðinu þar sem mjög kveður við sama tón. Ég verð að segja, herra forseti, að ég undrast langlundargeð forustumanna sveitarfélaganna í landinu að nenna að standa í samskiptum við ríkisstjórnina og ríkisvaldið ár eftir ár á þessum grundvelli. Ég undrast það. Og enn eru menn tilbúnir til að taka við auknum verkefnum út á fyrirheit um svokallaða fullnægjandi tekjustofna á móti, svokallaða, því inn í þetta dæmi virðist ævinlega gleymast að reikna þær væntingar eða beinlínis áform um umbætur og aukin útgjöld á viðkomandi sviði sem menn taka í raun í arf með verkefnunum. Auðvitað er það það sem komið hefur í ljós í sambandi við yfirfærslu grunnskólans að þar var um stórfellt vanmat að ræða hvað varðaði það sem var í pípunum og fram undan í formi aukinna útgjalda á því sviði.

Það gengur ekkert í löngu tímabærri uppstokkun á tekjulegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga og þau mál virðast öll vera í hinni mestu útideyfu. Sama má segja um niðurstöðu í því máli að hvaða leyti ríkið kemur inn í þátttöku á kostnaði vegna skuldbindinga sveitarfélaganna í félagslegu íbúðarhúsnæði.

Herra forseti. Ég held að það eigi að taka það hér upp til umræðu að koma þessum samskiptum í annan farveg. Og ég held að milliliðalaust samstarf sveitarstjórnarstigsins og Alþingis eigi að koma til, enda er það hér sem skattlagningarvaldið og lagavaldið liggur en ekki í ráðuneytunum. Einhvers konar samstarfsvettvangur Alþingis og sveitarfélaganna þarf að koma til sögunnar þar sem menn setja (Forseti hringir.) ramma um þetta samstarf og tekjuleg samskipti en sveitarfélögin fá svo talsvert sjálfræði innan þeirra marka sem þar eru.