Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Föstudaginn 03. desember 1999, kl. 14:41:23 (2263)

1999-12-03 14:41:23# 125. lþ. 35.12 fundur 235. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala á 15% hlut) frv. 93/1999, viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 125. lþ.

[14:41]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Það virðist vera alveg sama hvaða mál kemur hér inn í þingið, málflutningurinn hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni er allur á sama veg. Það er ekki haft fyrir því að lesa þingskjölin. Það er ekki haft fyrir því að hlusta á framsöguræðurnar með málunum. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefði getað svarað flestum af þeim spurningum sem hann spurði ef hann hefði aðeins lesið þingskjölin áður en hann steig í þennan ræðustól. En það þarf ekki lengri tíma en andsvarið til að svara hv. þm. Gert er ráð fyrir að viðskrh. hafi heimild til að auka hlutafé og það fékkst með lögum þegar gerð var formbreyting á ríkisviðskiptabönkunum. Þá var gert ráð fyrir því að viðskrh. væri heimilt að auka hlutafé í bönkunum allt að 35%. Búið er að nýta 15% af þeirri heimild. En af því að enginn þingmaður hefur talað jafnhátt og jafnlengi og hv. þm. um þær ofboðslegu hættur sem fram undan eru í efnahagsmálum og gert sig mjög digran í efnahagsumræðunni um að að sporna verði við þenslunni, þá liggur líka fyrir að eitt af því sem valdið hefur þenslunni eru þeir möguleikar sem bankarnir hafa haft til þess að stækka, og með því að veita þeim viðbótarheimild til þess að auka hlutafé sitt, sem viðskrh. gæti gert, þá mundu þeir stækka og þá væri hætta á að útlánaþensla mundi aukast. En með því að velja þá leið að selja hlutabréfin þá erum við að draga úr þenslunni.

Það er alveg rétt að fyrirheit voru veitt af hálfu stjórnvalda gagnvart starfsmönnum bankanna m.a. og þinginu að auka hlutafé. Um þetta mál hefur núna verið haft samráð við starfsmannafélög beggja bankanna og líka Samband íslenskra viðskiptabanka og Samband íslenskra bankamanna og starfsmenn látnir vita hvað stæði til, það væru forsendubreytingar frá því sem áður var og málið útskýrt. Og það er skilningur hjá þessum mönnum, enda er þetta fólk samkvæmt sjálfu sér.