Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Föstudaginn 03. desember 1999, kl. 14:45:56 (2265)

1999-12-03 14:45:56# 125. lþ. 35.12 fundur 235. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala á 15% hlut) frv. 93/1999, viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 125. lþ.

[14:45]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt --- ég tek undir það með hv. þm. --- að það er ekki til fyrirmyndar að koma með mál svo seint inn í þing eins og þetta og hefði verið betra ef hægt hefði verið að gera það fyrr. Það er hins vegar svo að við teljum að þær aðstæður sem uppi eru núna séu mjög hentugar til þess að fara af stað með þessa sölu og því kemur málið inn með þetta skömmum fyrirvara. Ég hef líka fullan skilning á því að einstakir hv. þm. komist ekki yfir að lesa öll þau þingskjöl sem á borð þeirra eru lögð, ekki síst þegar svona annir eru eins og núna. En þá verður líka að gera kröfu til þeirra hv. þm. að þeir tali ekki eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon talaði hér áðan og þá eiga menn að viðurkenna það. (Gripið fram í.) Hv. þm. vissi bara ekkert um hvað hann var að tala. Hann talaði hér af algjörri fáfræði um mál sem hann er með allar upplýsingar um fyrir framan sig og er að spyrja spurninga um það sem í því þingmáli er. Hv. þm. talaði eins og hann vissi ekkert um hvað málið snerist. Það er gagnrýnivert. En ég gagnrýni það ekki að menn komist ekki yfir að lesa. Ég bið þá menn að tala í samræmi við það hversu vel þeir hafa lesið heima.