Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Föstudaginn 03. desember 1999, kl. 14:47:01 (2266)

1999-12-03 14:47:01# 125. lþ. 35.12 fundur 235. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala á 15% hlut) frv. 93/1999, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 125. lþ.

[14:47]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég get sýnt hæstv. ráðherra greinargerð frv. ef hann vill á eftir og sýnt honum undirstrikanir með gulu sem ég gerði þegar ég fór hér yfir málið og las það. Ég frábið mér skæting af þessu tagi sem kemur frá hæstv. iðnrh. Ég held, hvað sem hver segir, að sá sem eitthvað fylgist með þingstörfunum megi vel fara í samanburð á því hvor okkar hefur staðið sig betur í þeim efnum. Það að ég hafi talað um þetta mál eins og ég viti ekkert um hvað það snýst, því mótmæli ég einnig. Ég er hins vegar ósammála hæstv. ráðherra og getur hæstv. ráðherra vinsamlegast gert greinarmun á því, en menn geta verið ósammála um mál þó þeir séu bærilega heima í þeim hvor um sig. Satt best að segja efast ég um það, með fullri virðingu fyrir hæstv. viðskrh. Finni Ingólfssyni, að hann geti kennt mér einhver ósköp í þessum efnum. Ég hef setið í efh.- og viðskn. Alþingis núna undanfarin átta ár þangað til á þessu vori og þekki þessa sögu nokkuð vel, hef komið að vinnu við hverja einustu löggjöf um bankamál sem farið hefur í gegnum Alþingi núna í næstum áratug þannig að ég þarf enga heimastíla frá hæstv. viðskrh. í þessum efnum. Og enn minni áhuga hef ég á því að eiga hann að læriföður eða fyrirmynd í þessum efnum eða öðrum.