Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Föstudaginn 03. desember 1999, kl. 14:54:31 (2270)

1999-12-03 14:54:31# 125. lþ. 35.12 fundur 235. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala á 15% hlut) frv. 93/1999, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 125. lþ.

[14:54]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Varðandi þetta síðasta þá fer það nú allt eftir því hvernig menn kjósa að stilla dæminu upp. Þó það séu áfram framkvæmdir á þeim sviðum sem ríkið hefur enn með höndum, eins og í samgöngumálum, þá held ég að það sé fráleitt að tala um það sem nýja ríkisvæðingu. Í raun og veru er það bara eðlilegt framhald af þeirri starfsemi sem ríkið hefur haft með höndum, eins og í undirstöðumannvirkjum á sviði samgöngumála. Einkavæðingin á fyrirtækjum og stofnunum er hins vegar breyting frá því sem verið hefur. Það er auðvitað hún sem er hið pólitíska átakamál samtímans. Og þar er stefnan öll í eina átt. Það getur vel verið að hv. þm. finnist hægt ganga. Ég þykist reyndar vita að hann vildi sjá ríkið að mestu leyti lagt niður. Þá yrði hv. þm. Pétur Blöndal hamingjusamastur ef það væri svona nokkurn veginn hægt að leggja ríkið niður, nema fánann. Ég vil líka segja að mér finnst það dálítil hugkvæmni að tala um einstaklinga sem ættu ekki að taka þá áhættu að eiga 2 milljarða í banka. Ég þekki nú ekki marga sem jafnvel þó þeir hafi talsvert lánstraust væru líklegir til þess og ég held að áhyggjur manna séu nú ekki aðallega bundnar af því að einstaklingar í krafti eigin fjár nái þarna undirtökunum í heilum ríkisviðskiptabönkum. Það hins vegar að það fari að verka fælandi gagnvart öðrum að fjársterk fyrirtæki eða hópar tengdra fyrirtækja sem að virka sem ein heild nái þannig undirtökunum með uppkaupum á eftirmarkaði, er möguleiki sem menn hljóta að þurfa að hafa í huga. Það þarf ekkert hugmyndaflug til. Það liggur fyrir að aðilar í þjóðfélaginu hafa á undanförnum missirum verið að skoða möguleikana á því að ná undirtökunum í slíkum fjármálastofnunum. Er þá ekki rétt að menn hafi það í huga að það gæti orðið útkoman? Það er ekkert víst að það gerist. Að sjálfsögðu tek ég undir það. Það er sjálfsagt ekki hægt að sjá fyrir hvað gerist á markaðnum. En mér finnst skynsamlegt að setja leikreglurnar fyrir fram ef vilji er til þess að tryggja í reynd dreifða eignaraðild og ég tel að það eigi að reyna á það áður en Alþingi lýkur afgreiðslu þessara mála.