Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Föstudaginn 03. desember 1999, kl. 15:31:21 (2274)

1999-12-03 15:31:21# 125. lþ. 35.12 fundur 235. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala á 15% hlut) frv. 93/1999, viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 125. lþ.

[15:31]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Það má endalaust deila um það hver ástæðan sé fyrir árangri sem menn ná og hver og einn vill auðvitað reyna að haga sínu máli og sínum rökum í samræmi við það sem hann telur best þjóna sínum pólitísku hagsmunum. Hins vegar verður því ekkert á móti mælt að árangurinn blasir við og þess vegna mótmælir hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon ekki. Árangurinn blasir við. Ég ætla ekkert að neita því að batnandi afkoma í atvinnulífinu á þar stóran hlut að máli. En af hverju er hún til komin? Vegna þess að ríkisstjórnin hefur skapað annað og betra umhverfi í íslensku atvinnulífi en áður hefur þekkst. Það er m.a. ástæðan. En ég vil líka tína til tvær aðrar. Það er búið að breyta skipulagi og rekstrarfyrirkomulagi beggja þessara banka, beinlínis fyrir tilstuðlan þess þegar formbreytingin átti sér stað. Gerðar voru kröfur af hálfu viðskrn. í þeim efnum um hvernig það gengi eftir, með skýrum samningum við yfirstjórnendur bankanna, með skýrum reglum um risnu, með skýrum reglum um ferðakostnað. Þetta var gert og hefur ekki lítið að segja. En kannski skiptir þó mestu máli sá agi sem Verðbréfaþingið veitir þessum fyrirtækjum með þeim hætti að árangur þeirra frá degi til dags er mældur eftir því hvernig þau eru vegin og metin á Verðbréfaþinginu. Og það skiptir kannski meginmáli. Sameining Landsbanka og Búnaðarbanka á þeim tíma sem hv. þm. var að tala um hefði verið óðs manns æði vegna þess að menn hefðu engum árangri náð þá. Það á þó ekki að útiloka nú. Ég ætla hins vegar ekki að vera með nein skilaboð frá eigandanum um hvað sé skynsamlegast að gera í þeim efnum. Þar vil ég að skilaboðin komi frá markaðnum, frá þeim sem best þekkja til á þessum markaði og eru að vinna og vita nákvæmlega hvernig rekstur fyrirtækjanna gengur og að þeir sjái sér ákveðin sóknarfæri í því hvernig þeir nái fram samleiðaráhrifum með rekstri bankanna.